Hættir eftir 40 ár í frystihúsinu

317
Deila:

Árdís Sigurðardóttir, verkstjóri í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, hefur látið af störfum eftir að hafa starfað í frystihúsinu í um 40 ár. Hún kvaddi starfsfélagana um síðustu mánaðamót en er enn til taks fyrir arftakana í húsinu og er jafnvel í daglegu símasambandi við þá. Tíðindamaður heimasíðu Síldarvinnslunnar hitti Árdísi að máli og spjallaði við hana um starfsferilinn. Hún upplýsti að hún hefði byrjað sem almennur starfsmaður í frystihúsinu, síðan gegndi hún lengi starfi gæðastjóra en við verkstjórastarfinu tók hún árið 2004.

„Þetta eru orðin 40 ár og ég hef einungis einu sinni gert hlé á mínum störfum í frystihúsinu. Það var barneignarhlé. Síðan var ég lánuð í eina loðnuvertíð til starfa í Norðursíld en þar var fryst loðna á vegum SÚA sem var samstarfsverkefni Skagstrendings og ÚA. Það hefur svo sannarlega gengið á ýmsu í rekstri frystihússins á þessum 40 árum og hefur efnahagsþróun og kvótakerfi komið þar mjög við sögu. Stundum hefur fiskur til vinnslu verið takmarkaður og um alllangt skeið var einungis unnið þrjá daga vikunnar í húsinu. Þá hefur gengisþróunin valdið óöryggi og erfiðleikum – krónan sveiflaðist lengi eins og kólfur í klukku.

Hefur lifað af sjö kennitölur

Ég hef haft fjölmarga yfirmenn á þessum 40 árum og segja má að saga frystihússins á þessum langa tíma hafi verið afar skrautleg. Það hafa alls sjö fyrirtæki rekið húsið á mínum starfstíma, þannig að ég hef lifað af sjö kennitölur í rekstri þess. Þegar ég byrjaði rak Fiskvinnslan hf. húsið, síðan var það Dvergasteinn hf., þá kom Skagstrendingur hf., næst var það Útgerðarfélag Akureyringa, og þá var röðin komin að Brimbergi ehf., Gullbergi hf. og loks er það Síldarvinnslan hf. frá árinu 2014. Eftir að Síldarvinnslan tók við rekstrinum hefur ýmislegt breyst, meðal annars er nægur fiskur og unnið alla virka daga. Þrátt fyrir að mikið hafi gengið á hvað varðar rekstur frystihússins á mínum starfstíma þá hef ég einungis tvisvar sinnum fengið uppsagnarbréf. Í annað skiptið kom ekki til atvinnumissis en í hitt skiptið missti ég vinnuna um skamma hríð,“ segir Árdís.

 Miklar breytingar

Þegar Árdís er spurð hvort miklar breytingar hafi átt sér stað í starfsemi frystihússins á hennar starfstíma segir hún: „Já, það hafa átt sér stað miklar breytingar hvað varðar vinnslubúnað, en mesta breytingin tengist starfsfólkinu. Þegar ég var að byrja þekktist vart að starfsmaður væri af útlendu bergi brotinn. Síðan fóru að koma stúlkur frá Nýja-Sjálandi og á undanförnum árum hefur uppistaða vinnuaflsins verið erlent fólk. Það starfa um 35 manns hér í frystihúsinu og ég held að 20% kvennanna séu íslenskar og kannski 30% karlanna. Ég man að eitt sinn starfaði hér fólk af níu þjóðernum þannig að móðurmál starfsmannanna voru níu talsins. Erlenda starfsfólkið er yfirleitt duglegt og gott en ólíkur menningarlegur bakgrunnur getur haft áhrif á starfsandann og jafnvel valdið ýmsum erfiðleikum. Hinn mikli fjöldi erlendra starfsmanna gerir starf verkstjórans erfiðara og fyrirhafnarmeira á marga lund.“

Verða mikil viðbrigði

Þegar Árdís er spurð hvað hún hyggist taka sér fyrir hendur í framtíðinni segir hún að sú spurning sé næsta verkefni hjá sér og eiginmanninum. „Við þurfum að finna út úr því saman. Maðurinn minn, Stefán Pétur Jónsson, var einnig að láta af störfum í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar hér á Seyðisfirði, þannig að nú höfum við allan heimsins tíma fyrir okkur sjálf. Þetta verða mikil viðbrigði. Ég hef yfirleitt unnið í níu tíma á dag síðustu árin og það er sérkennilegt að eiga ekki vinnudag fyrir höndum, en ég hef engar áhyggjur því við munum finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera. Það er alveg öruggt,“ segir Árdís að lokum.

 

Deila: