Harðbakur fer vel af stað

272
Deila:

Harðbakur EA 3 nýi togari Útgerðarfélags Akureyringa hefur komið vel út en skipið fór í sína fyrstu veiðiferð um miðjan maí og landaði fullfermi í fiskvinnslu félagsins. Slippurinn Akureyri annaðist hönnun, smíði og uppsetningu á nýju vinnsludekki í skipinu.

„Helstu áherslurnar voru að hámarka gæði og meðferð afla og var það margþætt verkefni. Blæðing, þvottur og kæling á fiski voru lykilatriði í ferlinu en einnig var lögð áhersla á að hafa vinnsludekkið einfalt og skilvirkt. Þær nýjungar sem snúa að vinnslubúnaði í skipinu voru meðal annars reimalyftukör sem er ný og einfaldari útfærsla á lyftukörum og fiskilyfta sem var sett til þess að lágmarka fallhæð frá vinnsludekkinu og niður í lest. Hönnun á vinnsludekkinu var unnin í góðu samstarfi við útgerðarsvið Samherja og eru báðir aðilar ánægðir með afraksturinn“ segir Bergþór Ævarsson sviðsstjóri framleiðslu hjá Slippnum Akureyri í viðtali við heimasíðu Slippsins.

Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja er ánægður með vinnsludekkið í Harðbak.

„Hráefnisgæði af nýja millidekkinu eru eins og best verður á kosið. Við hönnunina var notast við nýjar lausnir í bland við aðrar þekktar lausnir úr fyrri verkefnum. Það er ljóst að vel tókst til. Samstarfið við Slippinn Akureyri gekk vel og hefur þjónusta og eftirfylgni verið til fyrirmyndar“.

 

Deila: