Heldur skárra á kolmunnanum

96
Deila:

Heldur skárri kolmunnaveiði var í gær en verið hefur síðustu daga. Heimasíða Síldarvinnslunnar leitaði frétta hjá Gísla Runólfssyni, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni AK.

„Jú, það var heldur skárri veiði í gær en að undanförnu, en þetta er samt sem áður ekkert til að hrópa húrra yfir. Við fengum 230 tonn í gær eftir að hafa togað í 17 tíma og mér skilst að það sé með því mesta sem skipin fengu. Þetta er búið að vera ansi dapurt en þetta er svona þegar komið er fram á þennan tíma. Veiðarnar eru að fjara út. Núna er allur flotinn, eitthvað í kringum 20 skip, á einum smáum bletti hérna norðaustur af Færeyjum. Það sést eitthvað hérna og það eru allir að skakast í því. Við erum komnir með eitthvað í kringum 1000 tonn í bátinn og erum búnir að vera lengi að fá þetta. Við lönduðum síðast fyrir rúmri viku. Við erum búnir að lenda í töluverðu basli með veiðarfærin og það tekur alltaf tíma að eiga við slíkt. Staðreyndin er sú að það er búið að vera helvítis bras á okkur,“ segir Gísli.

Deila: