Hlutur fiskafla Breta úr eigin lögsögu rýr

179
Deila:

Gífurlegur „viðskiptahalli“ hefur verið á veiðum Breta innan lögsögu annarra ESB landa, og á veiðum annarra ESB landa innan lögsögu Breta.  Önnur ESB lönd hafa sótt átta sinnum meiri afla í bresku lögsöguna, en Bretar hafa sótt í lögsögu hinna ríkjanna. Hlutur Breta  úr eigin lögsögu hefur farið minnkandi ár frá ári, en hins ESB löndin sífellt aukið sinn skerf þar.  Með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu gætu þeir því með tímanum aukið fiskafla sinn úr eigin lögsögu verulega.

Þetta kemur fram í skýrslu frá Evrópusambandinu og sjávarútvegsstofnun Bretlands, UK Marine Management Organisation.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þessar

Áætlað er að tveimur milljónum tonna af fiski og skelfiski úr lögsögu Breta að verðmæti 300 milljarðar íslenskra króna hafi verið landað á árinu 2018. Meira en tveir þriðju hlutar magnsins og meira en helmingur verðmætanna kom af bátum utan Bretlands.

Hlutur landaðs afla af bátum skráðum á Bretlandseyjum féll um 16% á tímabilinu 2015 til 2018. Hlutur skipa frá öðrum aðildarlöndum ESB féll aðeins um 3% en hlutur allra skipa annarra en breskra og frá ESB jókst um 8%

Rétt rúmlega 250.000 tonnum af botnfiski, þorski, ýsu, ufsa, skötusel og flatfiski að verðmæti 88 milljarðar íslenskra króna var landað úr landhelgi Bretlands árið 2018. Helmingi þess afla lönduðu bátar utan Bretlands.

Um 1,4 milljónir tonna af uppsjávarfiski eins og makríl og síld að verðmæti 134 milljarðar króna voru veidd innan lögsögu Breta árið 2018. Skip utan Bretlands tóku þrjá fjórðu hluta aflans.

Rúmlega 150.000 tonn af skelfiski að verðmæti 69 milljarðar voru dregin á land úr lögsögu Breta árið 2018. 80% þess afla var landað af breskum bátum.

Þá veiddust um 180.000 tonn af fiski til bræðslu, sandsíli og fleira í bresku lögsögunni árið 2018. Næra allur fá afli, 98%, var tekinn af skipum utan Bretlands.

Heildarafli af fiski og skelfiski hjá breskum bátum innan bresku lögsögunnar jókst um 17% á átta ára tímabili frá 2011 til 2018. Á sama tíma jókst afli báta frá öðrum aðildarlöndum ESB löndum um 60%. Afli uppsjávarfisks Breta úr eigin lögsögu jókst á sama tímabili um 40%, en á sama tíma jókst afli hinna 27 aðildarríkjanna um 159%

Bresk fiskiskip lönduðu um 700.000 tonnum af fiski og skelfiski að verðmæti 177 milljarðar króna á árinu 2018. Um 80% þess afla voru tekin innan eigin lögsögu, 15% úr lögsögu annarra ESB ríkja.

Ríflega helmingur þessa afla var uppsjávarfiskur, uppsjávarfiskur var ríflega fjórðungur aflans og skelfiskur heldur minna. Hvað verðmæti varðar skiptist það jafnt milli þessara þriggja flokka fisktegunda.

Uppsjávarfiskur var þrír fjórðu af afla sem breskir bátar tóku innan lögsögu annarra ESB landa og hitt skiptist nokkuð jafnt milli botnfisks og skelfisks. Mest af þessum afla sóttu Bretar í lögsögu Írlands og síðan Frakklands. Einnig var botnfiskur tekin innan lögsögu Danmerkur, Þýskalands og Hollands. Mest af skelfiskinum var tekið innan lögsögu Frakka.

Á heildina litið tóku skip frá öðrum löndum innan ESB átta sinnum meiri afla innan lögsögu Breta, 860.00 tonn, en Bretar sóttu í lögsögu þeirra, 100.000 tonn á árinu 2018. Verðmætið var þó aðeins sex sinnum meira.

 

Deila: