Hrognkelsaframleiðsla úr 100 þúsundum í 3 milljónir

161
Deila:

Gífurleg framleiðsluaukning hefur orðið á hrognkelsum hjá fyrirtækinu Benchmark Genetics í Höfnum. Hrognkelsin eru nýtt til að éta laxalús í sjókvíaeldi.

Jónas Jónasson framkvæmdastjóri Benchmark Genetics á Íslandi segir í samtali á ruv.is
hugmyndina um hrognkelsaeldi hér á landi hafa orðið til vegna vandræða með laxalús í Færeyjum. Færeyingar prófuðu hrognkelsaeldið,  sem þeir fréttu frá Noregi að væri gott ráð við laxalús en tilraunin gekk ekki  sem skyldi. 

„Þá spurðum við þá, megum við ekki prófa. Þá fórum við í samstarf við Hafrannsóknastofnun hér og síðan þá hefur þetta verið eitt ævintýri. Fyrsta árið seldum við hundrað þúsund og nú erum við komin upp í tæpar þrjár milljónir sem við seljum. Og það sem hefur gerst samfara því er að þetta hefur ekki einungis nýst Færeyingum heldur líka nýst laxeldismönnum á Vestfjörðum.”

Jónas segir aðstæður á Íslandi til hrognkelsaeldis óvenju góðar því borholusjór sé nýttur, sem sé alltaf við sama hitastig, um átta gráður. Lítið sé af bakteríum eða veirum í þeim sjó sem sé jákvætt fyrir eldið. Í eldinu hjá Benchmark eru hrogn sem sjómenn ná í útklakin og á sjö mánuðum eru þau orðin tuttugu og fimm til þrjátíu grömm og til í slaginn.

Viðar Örn Victorsson er framleiðslustjóri hrognkelsa
„Þið bólusetjið hvern einasta fisk eða hvað?”  „Já það er gert með höndum. Hver einast fiskur er tekinn og stunginn og það geta verið tvær til þrjár milljónir á ári.” „Svo það er talsverð handavinna.”  „Það er mikil handavinna.”

Tólf starfsmenn vinna við hrognkelsaeldið í Höfnum á Reykjanesi. Hrognkelsin eru nýtt í eitt ár en svo notuð í mjöl eftir að laxinum í sjókvíum á Vestfjörðum og í Færeyjum er slátrað. Sóttvarnir eru mjög mikilvægar við eldi sem þetta og hrognkelsi er enginn venjulegur fiskur.

Andri Rúnar Sigurðsson er stöðvarstjóri hjá Benchmark Genetics á Íslandi
„Það er einmitt svolítið sérstakt við þennan fisk að hann er með sogskál framan á sér og það sem er svolítið öðruvísi við þetta eldi er að maður þarf að gá að fermetrunum því hann vill hafa pláss til þess að setjast á.”

Sérstakir gámar eru notaðir  til útflutnings til Færeyja og  tekur um einn og hálfan sólarhring að flytja hrognkelsin þangað. 
Hrognkelsin sem  send eru vestur á firði fara með brunnbátum eða bílum.

Athyglisvert er að laxinn hefur engan áhuga á að éta hrognkelsin því þau hafa náttúrulega v‘örn gegn afræningjum. Þau eru með gadda á hliðum og baki. Benchmark Genetics á Íslandi er í meirihlutaeigu Breta.

Deila: