Hvalahræjum hent út í hafsauga

145
Deila:

Varðskipið Þór ætlar að sigla norður á Strandir, sækja fimmtíu grindhvalahræ, sigla með þau út á sjó og kasta þeim þar fyrir borð. Aðgerðin er sú stærsta í sögu gæslunnar þegar kemur að förgun hvalhræja. Frá þessu er greint á ruv.is

Íbúar á Melum í Árneshreppi á Ströndum urðu á laugardagsmorgun varir við um fimmtíu grindhvali í fjöru skammt frá bænum. Þeir drápust allir og leggur af þeim sífellt stækari ýldulykt. Sveitarfélagið hefur óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við að fjarlægja hræin.

„Við höfum nú komið talsvert oft að því að draga hvali á sjó aftur en þetta er svolítið sérstakt, þetta eru svo margir hvalir,“ segir Ásgrímur Lárus Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni.

Hvernig sérðu fyrir þér að þið náið hvölunum?

„Planið hjá okkur að mæta bara á svæðið og fara svo í land á litlu bátunum og skoða aðstæður. Svo notum við stóru bátana til þess að draga þetta út í skipið og þar mun kraninn bara hífa þetta upp á dekkið,“ segir Páll Geirdal Elvarsson, skipherra varðskipinu Þór.

Siglt verðu með eitt og eitt hvalhræ í einu að varðskipinu. Þar verða hræin hífð upp á þilfarið og öllum fimmtíu hræjunum komið fyrir. 

Þetta verða náttúrulega vikugömul hræ. Verður þetta ekki dragúldið?

„Það verður örugglega ekki góð lykt hérna til þess að byrja með alla vega,“ segir Páll.

Ertu kominn með nóg af nefklemmum?

„Nei, nei, við erum ýmsu vanir hérna,“ segir Páll.

Þið miklið þetta ekkert fyrir ykkur?

„Nei, við höfum verið að taka upp gömul grásleppunet sem er svipuð lykt,“ segir Páll. 

Þú heldur að þeir tolli í heilu lagi meðan þið eruð að draga þá út?

„Ja, það verður bara að koma í ljós,“ segir Páll.

Hræjunum verður kastað fyrir borð þegar siglt hefur verið með þau frá landi. Páll segir að ekki dugi að skjóta hræin úti á sjó til að sökkva þeim. Það fljóti allt upp aftur. 

Heldurðu að þið þurfið að sigla langt út með hræin?

„Ja, það er ljóst að það þarf að fara með hræin út fyrir sjávarfallastraumana sem er svona 20-25 sjómílur undan annesjum. Þannig að að við þurfum að fara töluvert langt norður af landinu, 50-60 sjómílur frá þeim stað þar sem dýrin eru í dag,“ segir Ásgrímur.

Deila: