Kolmunninn úrvalshráefni

85
Deila:

Þegar kolmunnaveiðar hefjast færist líf yfir starfsemi fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar. Fiskimjölsverksmiðjurnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað tóku á móti fyrstu kolmunnaförmunum frá miðunum vestur af Írlandi sl. mánudag og hófst vinnsla þá strax.

Gunnar Sverrisson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að menn séu ávallt mjög ánægðir þegar hráefni berst til vinnslu en kolmunninn sem Margrét EA kom með sl. mánudag hafi verið fyrsta hráefnið sem Seyðisfjarðarverksmiðjan fær frá því um miðjan maímánuð. Þá upplýsir hann að vinnslu á farmi Margrétar sé lokið en Beitir NK komi til Seyðisfjarðar í dag með rúmlega 3000 tonn.

Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, er einnig mjög ánægður með að hjól verksmiðjunnar séu farin að snúast en verksmiðjan þar hefur tekið á móti förmum úr Bjarna Ólafssyni AK og Berki NK síðustu daga og Hákon EA er á leiðinni með fullfermi. Hann vonar að veiðarnar muni ganga vel og sem mest hráefni berist að landi.

Verksmiðjustjórarnir segja að kolmunninn sé afar gott hráefni til mjölframleiðslu. Þá sé ennþá nokkur fita í fiskinum og gefi hún rúmlega 2% lýsisnýtingu.  Fitan muni hins vegar fara minnkandi því fiskurinn sé nú í hrygningarástandi og gangi þá á fituforðann.

 

 

Deila: