-->

Leggja til vörumerkið „Báru“ fyrir sölu á þorski til bandarískra kvenna

Sigurlið Vitans – hugmyndakeppni sjávarútvegsins, sem fór fram um helgina, leggur til að Brim leggi áherslu á sjálfbærni íslenskra fiskveiða í markaðssetningu á íslenskum þorski í Bandaríkjunum. Í sigurtillögunum er lagt til að lögð verði áhersla á markaðssetningu til ungra og vel stæðra kvenna í Maine og Massachusetts, undir vörumerkinu Bára, enda sýni rannsóknir að konur taki ákvarðanir um kaup á neytendavörum í 85% tilfella. Í markaðsskilaboðum verði lögð áhersla á heilsu, uppruna og auðvelda matreiðslu, auk sjálfbærni. Einnig leggur liðið til að tölvusjón (e. computer vision) verði notuð til að greina jafnóðum fisk sem kemur í veiðarfæri og að vélnám (e. machine learning) verði notað á gögn úr skynjurum sem notaðir eru við veiðar, til að bæta orkunotkun. Þannig megi draga úr olíunotkun, stytta veiðitíma og minnka umhverfisáhrif veiða.

Úrslit Vitans, hugmyndasamkeppni sjávarútvegsins, sem áður gekk undir nafninu Hnakkaþon,  voru kynnt í HR á laugardaginn. Sigurliðið mun heimsækja Seafood Expo North America, stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi. Liðið skipa: Anton Björn Sigmarsson, nemi í hátækniverkfræði, Brynja Dagmar Jakobsdóttir, nemi í tölvunarfræði og fjármálaverkfræði, Kristín Sóley K. Ingvarsdóttir, nemi í tölvunarfræði og hátækniverkfræði og Zoë Vala Sands, nemi í MPM-námi í verkefnastjórnun og BSc í landafræði og sögu.

Vitinn er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík. Í keppninni leysa nemendur verkefni sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Samstarfsfyrirtækið í ár var Brim sem stundar veiðar og vinnslu á botn- og uppsjávarfiski og selur afurðir um allan heim. Verkefni keppninnar í ár snerist um að koma fram með tillögur að markaðsátaki í Bandaríkjunum og svara því hversu verðmætir þættir sem tengjast sjálfbærni væru í huga bandarískra neytenda,

Liðin fengu verkefnið í hendur á fimmtudaginn og kynntu lausnir sínar fyrir dómnefnd á hádegi á laugardaginn. Dómnefndina skipuðu Ari K. Jónsson, rektor HR, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims, Magnús Þorlákur Lúðvíksson, forstöðumaður viðskiptaþróunar Icelandair og Valdimar Sigurðsson, prófessor við viðskiptadeild HR.

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

500 tonnum landað á Patró

Alls var landað rúmum 518 tonnum í Patrekshöfn í síðasta mánuði. Mest bar á strandveiðibátum og var afli um 30 báta  um 176 to...

thumbnail
hover

Ráðgjöf og afli á pari í...

LS hefur sent inn í Samráðsgátt athugasemdir við frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðistjórn á grásleppu. „Vakin er athygli ...

thumbnail
hover

Breytt stemmning í síldinni

Nú ríkir síldarstemmning í Neskaupstað en sú stemmning er að mörgu leyti ólík þeirri stemmningu sem ríkti á hinum svonefndu sí...