Litlu jólin um borð í Freyju

146
Deila:

Um helgina kom áhöfnin á varðskipinu Freyju saman og hélt hið árlega jólabingó og litlujól. Áhöfnin hefur í fjölmörg ár staðið fyrir viðburðinum um borð í Tý en nú hefur hefðin verið flutt yfir á varðskipið Freyju. Áhöfnin tók saman stuttan jólapistil:

,,Dagurinn var með hefðbundnu sniði, þ.e.a.s. okkar sniði. Þegar kvölda tók klæddu menn sig upp í betri fötin og mættu til kvöldverðar eða sérstaks jólahlaðborðs þar sem þau Rannveig og Kalli fóru á kostum eins og þeirra er von og vísa. Borðin, sem eru stærri en við eigum að venjast á Tý, svignuðu undan jólakræsingunum. Til að gera svona stóran dag að veruleika hjálpast allir að við undirbúning og frágang.

Eftir vaktaskipti kvöldvaktarinnar hófst svo hið árlega jólabingó og fóru hinar ýmsu kynjaverur að mæta í borðsalinn og vaktirnar tóku þátt í gegnum myndsíma. Spilaðar voru 14 umferðir og voru veglegir vinningar í boði, sem okkur bárust úr ýmsum áttum.

Við kunnum velunnurum okkar, fyrirtækjum og einstaklingum sem lögðu okkur til þessa flottu vinninga, hinar bestu þakkir fyrir.

Varðskipið Freyja heldur til heimahafnar á næstu dögum og taka þá félagar okkar á Þór við vaktinni. Þá förum við heim í stutt aðventufrí og tökum svo við vaktinni aftur þann 22. desember og fram yfir áramót.

Áhöfnin á varðskipinu Tý/ Freyju þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða og sendir landsmönnum öllum, fjölskyldum, samstarfsfélögum og vinum óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.“

Deila: