Ljómandi góð lúða

490
Deila:

Okkur hjónunum áskotnaðist svolítið af lúðuflökun núna í sjálfskipaðri sóttkví. Lúðan var kærkomin og auðvitað gæddum við okkur á henni og prufuðum einfalda en afbragðsgóða uppskrift sem við höfum stundum notað við matreiðslu á bleikju, en með svolitlum breytingum. Vegna sóttkvíarinnar var notast við það sem til var heimafyrir. Þetta reyndist algjör veislumatur og gott að gleyma veiruófétinu um stund yfir ljómandi góðri lúðu.

Innihald:

800g af lúðuflökum í 4 jöfnum bitum með roði,
1 bolli af rækjum
1 kúfuð msk. af kapers
stubbur af blaðlauk,
rauð paprika, nokkrar sneiðar,
1 msk. steinselja
20g smjör
1 msk. basilíkuolía
1 msk. hlynsýróp
þurrkuð basilíka
sítrónupipar
fenniku duft

Aðferð:

Hreinsið fiskinn og gætið þess sérstaklega að ekkert slím sé á roðhliðinni.
Hitið góða pönnu og setjið smjörið og basilíkuolíuna á hana. Kryddið fiskinn á holdhliðinni með sítrónupipar og þurrkaðri basilíku.
Þegar blandan er orðin snarpheit, eru lúðubitarnir settir á pönnuna með holdhliðina niður og látnir brúnast svolítið. Þá er roðhliðin krydduð með sama kryddi. Snúið síðan fiskbitunum við steikið þá áfram á miklum hita í nokkrar mínútur eftir þykkt til að fá roðið stökkt. Undir það síðasta eru kapersberin kreist fyrir fiskinn og síðan látin á pönnuna, basilíkuolíu og hlynsýrópi hellt jafnt yfir bitana. Loks fer rækjan út á og síðan ferskur blaðlaukur og paprika söxuð og dreift yfir bitana. Gott er að ausa því sem eftir verður á pönnunni yfir fiskinn

Berið fram með fersku grænmeti og soðnum kartöflum.

 

Deila: