Mælingum á burðarþoli lokið á þremur svæðum

128
Deila:

Hafrannsóknarstofnun hefur lokið mælingum fyrir burðarþolsmat í Eyjafirði en matinu sjálfu er ekki lokið.  Sama gildir fyrir Mjóafjörð eystri og Norðfjarðarflóa. Þetta kemur fram í svari Ragnars Jóhannssonar, sviðsstjóra hjá Hafrannsóknarstofnun við ítrekaðri fyrirspurn frá Bæjarins besta um hvar unnið hafi verið að burðarþolsmati fyrir 94 m.kr. styrk frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis sem fékkst 2018.

Stofnunin sótti um styrk og fékk til þess að meta burðaþol fjarða og sjókvíaeldissvæða.

Spurningu um það hvernig styrknum hefði verið varið svaraði stofnunin með því að senda sundurliðun kostnaðar upp á 87 milljónir króna

Mælingum lokið í Eyjafirði. 

Ekki kom fram í fyrra svari Hafrannsóknarstofnunar hvaða hafsvæði var tekið til burðarþolsmats og var þá ítrekuð spurningin um það hvort Eyjafjörður hafi verið svæðið sem metið var. Þeirri spurningu hefur nú  verið svarað.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var inntur eftir því á opnum fundi í Eyjafirði um fiskeldi hvort burðarþolsmat væri tilbúið og samkvæmt heimildum Bæjarins besta fullyrti ráðherrann að svo væri ekki.

Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akvafuture segir að burðarþolsmat fyrir Eyjafjörð sé tilbúið hjá Hafró. Akvafuture hefur sóst eftir leyfi til fiskeldis í Eyjafirði í hálflokuðum kvíum.

Jón Örn Pálsson, fiskifræðingur á Tálknafirði sem einnig hefur unnið að því verkefni segir að árin 2018 og 2019 hafi Hafrannsóknastofnun unnið miklar sjófræðimælingar i Eyjafirði  til þess að meta burðarþol til fiskeldis.

Samkvæmt lögum sem sett voru í fyrra er burðarþolsmat fyrir einstök svæði ekki unnið nema ráðherra kalli eftir því. Málið virðist því nú vera í þeirri stöðu að burðarþolsmatið sé langt komið fyrir ofangreind þrjú svæði en verði ekki klárað nema ráðherrann óski eftir því.

 

Deila: