Makríll unninn um helgina

100
Deila:

Makríll var unninn hjá Vinnslustöðinni um helgina. Kap kom til Eyja með hátt í 800 tonn úr Smugunni, stóran fisk og góðan. Skipið hélt þangað aftur að löndun lokinni. 

Ísleifur var í Smugunni og Huginn á leið þangað á föstudag. Bræla hefur verið á þessum slóðum og lítið um veiðiskap en vonir standa til að afli glæðist nú þegar veður fer batnandi.

Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri segir að það kosti auðvitað sitt að sækja fiskinn langar leiðir en ástand sjálfs makrílsins í Smugunni sé samt meira vandamál.

„Makríll og makríll er fjarri því að vera hið sama. Náttúrulegt ástand fisksins er einfaldlega mismunandi. Makríllinn í Smugunni á þessum árstíma er  lakara hráefni að jafnaði en sá sem við þekkjum hér á heimamiðum. Átan í Smugumakrílnum er öðru vísi og skemmir hann meira. Sérstaklega smáfiskurinn er viðkvæmari en gerist hér við land. Munurinn birtist svo að sjálfsögðu á mörkuðum, bæði hvað varðar eftirspurn og verðlag.“

Áhafnir botnskipsskipa Vinnslustöðvarinnar voru í fríi um helgina. Breki hélt til veiða aðfaranótt mánudags og Brynjólfur VE þar á eftir. 

Drangavík er hins vegar frá veiðum vegna alvarlegrar vélarbilunar. Stefnt er að því að viðgerð ljúki fyrir miðjan ágústmánuð.

Deila: