Maríneruð lúða

418
Deila:

Lúðan er drottning Atlantshafsins og þykir mikill happadráttur að hún hlaupi á snærið hjá fiskimönnum. Enda gat ein stórlúða nýst heilli fjölskyldu oft í matinn. En nú eru beinar veiðar á lúðu, á svokallaða haukalóð, bannaðar. Alltaf slæðist þó eitthvað af þessum góða fiski með í önnur veiðarfæri. Þá ber að landa lúðunni á markað og fer andvirði hennar til sjóða sem styrkja rannsóknir og þróun í sjávarútvegi.  Fyrir vikið er oftast hægt að kaupa sér lúðu í matinn í fiskbúðum landsins.

Innihald:

3 msk. ólívuolía

1 dl. ferskur sítrónusafi

1 tsk. reykt paprika

½ tsk. rauðar piparflögur

6 geirar af hvítlauk, marðir

1 tsk. þurrkað dill

½ tsk. nýmalaður svartur pipar

1 tsk. sjávarsalt

1 600g lúðuflök í fjórum jöfnum bitum

2 tómatar skornir í teninga

2 msk. fersk steinselja, söxuð

Aðferð:

Takið gott eldfast mót og blandið þar saman ólívuolíu, sítrónusafa, paprikuduftinu, rauðu piparflögunum hvítlauknum, dillinu, svarta piparnum og sjávarsaltinu saman í góða maríneringu. Leggið lúðubitana í löginn og ausið aðeins yfir þá. Lokið mótinu með plastfilmu og látið marínerast í allt að 2 tíma í ísskápnum. Stillið bakaraofninn á 180°C, takið plastfilmuna af mótinu og bakið fiskinn í 20 mínútur. (Tíminn fer nokkuð eftir þykkt bitanna.)

Stráið tómötunum og steinseljunni yfir og berið fram með hrísgrjónum eða soðnum kartöflum. Salat að eigin vali spillir ekki og einnig má bera gott brauð fram með réttinum. Ef við á, setur kælt hvítvín punktinn yfir iið.

 

Deila: