Metafli á strandveiðunum í sumar

Afli á strandveiðum hefur aldrei verið meiri en í ár, 11.860 tonn og alls tóku 669 bátar þátt í veiðunum. Flestir bátarnir voru árið 2010 741, 685 árið 2011 og 675 árið 2013. Einn bátur náði 47 róðrum af 48 mögulegum og aflahæsti báturinn varð Steinunn ÁR 34 með 46,1 tonn. Alls náðu sex bátar að fara yfir 40 tonnin.

Mesti meðaltalsafli á bát 2018

„Bátunum fækkaði mikið 2017, en hefur fjölgað á ný síðustu þrjú árin. Mér hefur fundist að bátunum gæti fjölgað meira, en árið 2017 var verðið á fiskmörkuðum mjög lágt í maí og júní, um 204 krónur á kíló af þorski að meðaltali. Það varð til þess að bátunum fækkaði. Árið 2018 var svo eiginlega metár hjá okkur í afla á hvern bát, eða 17,8 tonn að meðaltali. Þetta ár náði ekki að toppa það því afli að meðaltali var 17,7 tonn. Árið 2019 var svo feikilega gott en þá var meðalverð 328 krónur á kíló. Meðalverðið í ár var í kringum 300 krónur á þorskinum en lágt verð í maí og fram í júní dró meðaltalið töluvert niður. Það var að miklu leyti út af Covid-faraldrinum og menn vissu varla sitt rjúkandi ráð, vissu varla hvort menn gætu hreinlega selt aflann eða ekki. Við fórum því fram á það við ráðherrann að reglum um fjölda daga í mánuði yrði aflétt þannig að bátarnir gætu verið lengur að, en svo lagaðist ástandið og ekki kom til þess að breyta þyrfti reglunum og í júlí og ágúst fékkst alveg fantagott verð fyrir aflann og því var gott hljóð í mönnum,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landsambands smábátaeigenda.

„Það var kannski helst á norðurausturhorninu og suður með Austfjörðum, þar sem mest er af fiski í júlí og frameftir ágúst, að menn voru ósáttir við að veiðarnar voru stöðvaðar um miðjan ágúst. Árið 2017 var met ár á svæði C, 18,8 tonn á bát, en var aðeins 15,2 tonn nú, en 15,5 í fyrra. Í ljósi þessa er helsta krafan hjá okkur núna að bátarnir fá 48 daga, að veiðar verði ekki stöðvaðar í ágúst og mönnum gefinn kostur á að veiða 12 daga þá eins og í öðrum mánuðum. Við sáum að það saxaðist dálítið fljótt á pottinn og eftir töluverða baráttu ákvað ráðherrann að bæta við 720 tonnum og um það munaði svo sannarlega, enda aflaverðmæti þess um 300 milljónir,“ segir Örn.

Tekist á við ráðherrann

„Síðan var tekist á um það í allt sumar að fá meiri viðbætur því við töldum að í upphafi hafi ráðherrann skert viðmiðunina um 1.000 tonn, það hefðu annars mátt veiða 11.000 tonn af þorski sem við mættum fiska, en hann lét 10.000 tonn í reglugerð og var algjörlega ófáanlegur til að breyta því. Við fengum stuðning frá atvinnuveganefnd Alþingis, sem féllst á málstað okkar og að ufsi væri þar fyrir utan, en ráðherranum var ekki haggað. Þá bentum við líka á að við hefðum á árinu 2019 ekki nýtt allar veiðiheimildir og ættum því fá færslu á milli ára. Það gekk heldur ekki og var því borið við í ráðuneytinu að búið væri að nýta allar heimildir til þorskveiða í pottum ríkisstjórnarinnar. Við bentum þá að að óeðlilegt væri að strandveiðimenn skyldu skertir umfram aðra. Það tókst því miður ekki að fá að halda veiðum áfram út ágúst og þótti mörgum einkennilegt að alheimsfaraldur dygði ekki til til þess að breyta einhverju. Við bentum líka á aukið alvinnuleysi, sem veiðar út ágúst og september hefðu getað mildað aðeins. Við fengum góðan hljómgrunn um það og það kom inn til atvinnuveganefndar, en því miður kom ráðherrann ekki fram með frumvarp sem hefði heimilað strandveiðar í september. Því fór sem fór og veiðarnar stöðvuðust 19. ágúst.“

Erum alveg hvumsa

Nú liggur fyrir frumvarp um töluverðar breytingar á nýtingu aflaheimilda úr hinum opinberu pottum og sömuleiðis á strandveiðikerfinu. Hvernig horfa þær við ykkur?

„Við erum í raun og veru alveg hvumsa yfir því að það skuli hvarfla að ráðherranum að  snúa aftur til þess kerfis sem menn voru sammála um að leggja af. Þetta kerfi sem við erum búnir að vera með frá 2018 byggir á því að öll svæðin fái jafnmarga daga innan hvers mánaðar þannig að fulls jafnræðis sé gætt. Aftur á móti þarf að sníða af vankanta sem felast í því að það er slakari fiskigengd fyrir Norðausturlandi á fyrri hluta tímabilsins í maí og júní, en vex svo  í júlí og ágúst. Fyrir vestan er fiskigengdin jafnari, en við Suður- og Vesturlandið en veiðin mjög góð í maí og fram í miðjan júní, en síðan tekur undan henni. Þess vegna héldum við að við núverandi breytingar væri reynt að laga reglurnar um strandveiðarnar að fiskigengdinni eins og talað var um í atvinnuveganefnd. Við vildum reyndar fleiri en 12 daga í mánuði, fórum fram á 14 daga í mánuði en niðurstaðan varð 12 dagar og að veiðarnar yrðu ekki stöðvaðar á tímabilinu. Þar af leiðandi yrði ekki sú pressa að men gætu verið stoppaðir í fyrrihluta mánaðar eins og áður var.

Þegar til kastanna kom neitaði ráðherrann að samþykkja þetta nema hann hefði heimildir til að stöðvar veiðarnar þegar viðmiðunarmarki væri náð. Það hafðist þó að bæta aðeins í strandveiðarnar til að reyna að tryggja að það dygði í 48 daga. Það varð raunin 2018 og 2019, ekki í ár og við gerðum ráð fyrir að það yrði reynt að lagfæra það á einhvern hátt, en þá vill hann stökkva aftur til gamla fyrirkomulagsins og deila aflanum niður á svæðin í mánaðarskömmtum og byggja upp þetta stórhættulega kapphlaup við að reyna að ná sem flestum dögum áður en veiðarnar vera stoppaðar þegar viðmiðunarafla er náð þó ekki sé langt liðið á mánuðinn.

Klár eyðileggingarstarfsemi

Ég lít á þetta sem hreina og klára eyðileggingarstarfsemi á góðu kerfi. Ég er mjög undandi yfir því. Það er þegar búið er að byggja upp kerfi sem er gott svar við því sem er að gerast í stjórnun fiskveiða, að hægt sé að ganga að 10.000 tonna þorskafla á strandveiðum á sumrin, þegar stærri bátar eru kannski ekki að veiðum og framboð af fiski minna en aðra árstíma. Þannig hefur myndast góður markaður fyrir fisk yfir sumartímann. Það nær hreinlega engri átt að fara að hrófla við þessu. Ég hef enga trú á því að Alþingi taki undir þetta frumvarp  sem nú er til kynningar í samráðsgáttinni. Ráðherrann fær þar þær athugasemdir sem fram koma um frumvarpið og ég ætla að vona það að hann muni þá breyta frumvarpinu og leggi það fram þannig að 48 dagarnir verði tryggðir.“

Í umræddu frumvarpi eru einnig boðaðar breytingar á nýtingu ónýttrar línuívilnunar, sem reyndar hefur verið lækkuð þrjú ár í röð. Hver er skoðun trillukarla á því?

Allir línubátar ættu að fá línuívilnun

Örn segir að Landssamband smábátaeigenda hafi farið fram á það í mörg ár að línuívilnun yrði breytt með þeim hætti að allir dagróðrabátar gætu fengið ívilnun vegna línuveiða. Reglan hafi verið sú að línuívilnun kæmi aðeins til báta sem beittu línuna í landi og eða stokkuðu hana upp í landi. Þeir hafi viljað að ívilnunin kæmi í ákveðnum hlutföllum eftir því hvort línan væri beitt í landi, stokkuð upp í landi eða beitt á sjó í beitningarvélum. Þannig myndi línuívilnun nýtast betur. Ráðherrann hafi á hinn bóginn ekki viljað breyta þessu og því fært heimildir til línuívilnunar niður að því marki sem nýtist. Með því verði því minna af ónýttum heimildum til að spila úr til dæmis til að auka við strandveiðiheimildir eins og verið hefur. Markmið Landssambandsins sé að hamra á þessu og fá meiri heimildir sem nýtist þá öllum línubátum á dagróðrum. Eins og nú horfi til í frumvarpinu ætli ráðherrann að færa ónýttar heimildir til línuívilnunar inn í byggðakvótann og við það séu strandveiðimenn alls ekki sáttir.

Of seint gripið inn í grásleppuveiðar

Enn eitt álitamál er í deiglunni um þessar mundir, en það er kvótasetning á grásleppu. Vertíðin á þessu ári fór úr böndunum vegna mikils afla báta á fyrsta tímabilinu. Leiddi það til þess að margir bátar fengu mjög fáa eða enga veiðidaga.

„Vertíðin í ár var sú fyrsta í mjög mörg ár sem landssambandið kom ekki að stjórnun veiðanna með beinum hætti. Það er ein af megnin ástæðunum fyrir því að stjórnunin gekk svona illa. Lítill sem enginn áhugi var á því í ráðuneytinu að grípa inn í veiðarnar, þannig að allir fengju nokkurn veginn jafnmarga daga. Það veiddist mjög vel og hefði því þurft að grípa inn í miklu fyrr en gert var og fækka veiðidögunum. Það hafði líka áhrif að upphafstíminn var færður fram til 10. mars í stað þess 20. eins verið hafði. Þegar svo kom að því að Hafró gaf út sína ráðgjöf fyrsta apríl voru mjög fáir dagar til þess að menn gætu áttað sig á því hvernig veiðin myndi þróast og fækkað dögum yfir alla heildina þannig að allir fengju jafnmarga daga. Þetta var ekki gert, en í svona veiðum þarf að fylgjast mjög náið með því hvernig veiðist og grípa í taumana í tíma.

Um 40 bátar komust ekkert á veiðar

Þess í stað voru veiðarnar stöðvaðar í byrjun maí og leiddi það til þess að sjálfsagt einir 40 bátar komust ekkert á veiðar. Það voru ekki nema um 200 bátar sem tóku þátt í veiðunum núna, en þeir hafa verið um 250 undanfarin ár. Þetta olli eðlilega mikilli óánægju því menn voru búnir að undirbúa sig og leggja í mikinn kostnað. Ekki minnkaði óánægjan, þegar heimilað var að hefja veiðar í innanverðum Breiðafirði. Rökin sem voru notuð voru þau að þar höfðu menn ekki heimild til að byrja fyrr en 20. maí, sem eru í sjálfu sér gild rök, en það hefði þá einnig átt að ganga til þeirra aðila sem voru ekki byrjaðir veiðarnar og höfðu yfirleitt ekki byrjað þær fyrr en í byrjun maí. Það hefði þá átt að heimila þeim líka veiðar í 15 daga,“ segir Örn.

Hann segir ennfremur að menn hafi efast nokkuð um ráðgjöf Hafró um hæfilegan heildarafla. Axel Helgason, fyrrverandi formaður landssambandsins hafi sýnt fram á að útreikningar Hafró á heildarafla út frá fjölda hrognatunna hafi reynst rangir. Gerð hafi verið rannsókn á þessu í Stykkishólmi sem leiddi til þess að Hafró hækkaði veiðiráðgjöf sína upp á 5.200 tonn og sé veiðin alveg á pari við það.

„Síðan liggur fyrir frumvarp sem tekur til kvótasetningar á grásleppu. Það er í annað sinn sem sjávarútvegsráðherra leggur það frumvarp fram.  Í fyrra skiptið fékk hann ekki samþykki fyrir því hjá Framsókn og Vinstri grænum. Nú gerir hann aðra tilraun til að koma þessu í gegnum þingið, en ég á erfitt með að sjá að afstaða þessara flokka taki einhverjum breytingum.

Aðalfundur hafnaði kvótasetningu

Innan Landssambandsins eru líka mjög skiptar skoðanir um það hvort setja eigi grásleppuna í kvóta. Síðasta aðalfundur samþykkti að hafna kvótasetningunni og er þar ýmislegt sem menn benda á. Til dæmis það að sú veiðistjórnun sem verið hefur veitir mönnum ákveðin réttindi til að nýta þá daga sem gefnir eru út til veiða.  Þeir fara þá ekki til veiða nema á þeim tíma sem bæði eru góðir markaðir fyrir hrogn og gott verð á þeim. Fyrir vikið hafa þeir þá kannski ekki neina sérstaka viðmiðun, þegar kemur til kvótasetningar, þó þeir hafi haft þennan rétt. Svo eru kannski aðrir sem hafa búið við þær aðstæður að hafa ekki eða lítið komist til grásleppuveiða undanfarin þrjú ár og því með slaka viðmiðun. Þegar aflahlutdeild verður svo reiknuð á þá 450 aðila sem rétt hafa til grásleppuveiða, er hætt við að hópurinn þynnist ansi mikið út þó miðað verði við þrjú bestu árin frá 2013 til 2018.

Við höfum líka bent á það að stjórnun veiðanna með útgáfu veiðidaga og tímabila hefur gengið mjög vel. Við höfum tekið saman aflann frá 2011 til 2020  og er ráðgjöf Hafró upp á 51.000 tonn á því tímabili, en veiðin er upp á 50.000 tonn. Það er í raun og veru ekki hægt að toppa þessa samsvörun í veiðum og ráðgjöf. Þarna fer það saman að reynt er að stemma dagafjöldann við það sem Hafró gefur út, auk þess sem að er reynt að taka tillit til stöðunnar á mörkuðum og afurðaverðs. Stundum er lítið hægt að selja af hrognum, þá lækkar verðið og færri fara á veiðar. Stundum vantar hrogn og þá fara menn og veiða í samræmi við það.

Gott kerfi

Okkur finnst þetta kerfi vera mjög gott og viljum því halda því að ekki sé aðeins farið eftir ráðgjöf Hafró, heldur einnig eftir markaðsaðstæðum og ekki verið að veiða mikið til dæmis inn á yfirfullan hrognamarkað. Þannig hafa til dæmis veiðilöndin sem eru auk okkar Grænland og Nýfundnaland tekið sig saman um hve mikið markaðirnir þoli án verulegra verðlækkana. Ég hef heldur ekki orðið var við neinn sérstakan áhuga hjá þeim sem eru að kaupa grásleppuna af körlunum á því að breyta þessu kerfi. En það kemur kannski fram í þeim athugasemdum sem gerðar verða í samráðsgáttinni. Eins held ég að okkur sé bara hollt að hafa einhver önnur veiðikerfi við hliðina á kvótakerfinu. Kerfi sem hafa gengið ágætlega ártugum saman. Ég held líka að það sé engin þörf á því að fækka bátum, en það myndi gerast ef veiðarnar yrðu færðar í kvóta. Þannig gæti horfið sú stemning og atvinna sem grásleppuveiðarnar hafa skapað í gegnum tíðina í hinum dreifðu byggðum landsins,“ segir Örn.

Innan við 10 tonn af makríl veidd af smábátum

Nú hefur orðið sú breyting á að í fyrsta sinn í mörg ár, hafa smábátar ekki stundað makrílveiðar. Er það vegna breytts göngumynstur makrílsins, sem skilar sér ekki á veiðislóði smábáta.

„Þetta hefur annars gengið ágætlega hjá okkur undanfarin ár og gefið ágætis tekjur, þetta er stutt vertíð og menn fljótir að ná í mikinn afla. Síðan kemur þetta ár núna þegar það fiskast innan við 10 tonn á grunnslóðinni. Við hefðum viljað hafa kerfið eins og alltaf var stefnt að, við hefðum bara ákveðinn pott til að veiða úr og ollum væri frjálst að stunda makrílveiðar á grunnslóðinni. Það er makríll sem ekki er verið að taka af neinum öðrum vegna þess að  stærri skipin hafa ekki heimild til að veiða á grunnslóðinni. Þetta er eingöngu krókaveiddur makríll og gæðin þess vegna gríðarlega góð og aflameðferðin til fyrirmyndar. Þegar makríllinn var settur í kvóta tókst að fá 4.000 tonna pott fyrir smábáta, sem þeir gátu þá keypt heimildir úr. Þessa vegna eru smábátarnir með veiðileyfi upp á 7.000 til 8.000 tonn í eðlilegu ári. Nýti smábátarnir sé ekki þennan pott, geta svo stóru skipin sótt í hann.“

Örn segir að auðvitað sé það ekki kvótasetningu að kenna að makrílinn gangi ekki á Íslandsmið, „en við vorum mjög andvígir því að makrílinn hafi verið færður í kvóta. Við sáum makrílveiðarnar vera að þróast þannig að sífellt fleiri gerðu sig klára á makrílveiðar og þá var fjöldi báta að leita að makrílnum á hverju ári og stunda veiðarnar. Síðan, þegar kvótasetningin kemur, eru kannski ekki nema um 40 til 50 bátar sem hafi fengið nægar heimildir til að hafa eitthvað upp úr þessu. En það voru á annað hundrað bátar sem voru búnir að búa sig til makrílveiða áður en kvótinn kom á. Með tilkomu hans varð stór hluti þessa búnaðar verðlaus, því mjög margir bátar höfðu ekki næga viðmiðun  til að geta stundað veiðarnar með viðunandi árangri.“

Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri. Blaðið er gefið út af Ritformi og er því dreift til fyrirtækja um allt land. Blaðið má ennfremur lesa á heimasíðu útgáfunnar á slóðinni, https://ritform.is/wp-content/uploads/2020/10/soknarfaeri_SJOR_4_tbl_okt_2020_100.pdf

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Litun á laxholdi með náttúrulegum Litarefnum

Lokið er AVS verkefninu „Litun á Laxholdi með náttúrulegum Litarefnum“ og hefur lokaskýrsla verkefnisins nú verið gefin út. ...

thumbnail
hover

Gott úthald rannsóknaskipanna

Þrátt fyrir mjög krefjandi ytri aðstæður vegna Covid faraldursins hafa rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar komist í alla rannsókna...

thumbnail
hover

Samstaðan er okkar sterkasta vopn

Þorlákur Halldórsson, fráfarandi formaður Landssambands smábátaeigenda brýnir félaga sína til samstöðu gegn frumvörpum sjávar...