Norskir fiskframleiðendur vilja sóttvarnarhótel

199
Deila:

Þorskvertíðin við Lofoten og Vesterȧlen í Noregi mun hefjast fljótlega á nýju ári og þá mun erlent starfsfólk streyma til landsins. Gert er ráð fyrir að fiskvinnslufyrirtækin á vertíðarsvæðinu þurfi að ráða allt að 4.000 manns til starfa og verður vart annað séð en að það starfsfólk muni koma erlendis frá. Að vísu er atvinnuleysi umtalsvert í Noregi en talið er að erfitt muni reynast að fá Norðmenn til að koma til starfa á vertíðarsvæðinu auk þess sem störf við fiskvinnsluna reyna á líkamlega og þykja því ekki girnileg. Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Gert er ráð fyrir að erlent starfsfólk fari í sýnatöku við komuna til landsins og ef sýnið er neikvætt þarf fólkið að fara í tíu daga sóttkví áður en það getur hafið störf. Í sóttkvínni þarf viðkomandi að dveljast í einstaklingsherbergi sem gera má ráð fyrir að yrði þá oftast í verbúð viðkomandi fyrirtækis. Samtök fiskframleiðenda í Noregi sér galla á þessu fyrirkomulagi og telur að heppilegra sé að fólkið dvelji í þessa tíu daga á sérstökum sóttkvíarhótelum sem starfrækt yrðu við alþjóðaflugvöllinn í Gardermoen í nágrenni Osló og við landamærin þar sem verkafólkið kæmi landleiðina til Noregs. Telja samtökin að erfitt yrði fyrir starfsfólkið að dvelja í sóttkvínni í verbúð í litlu samfélagi þar sem hætta væri á að það yrði litið hornauga. Geir Ove Ystmark, framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda, telur eðlilegt að ríkið styrki dvöl erlenda starfsfólkisins á slíkum sóttkvíarhótelum. Segir Ystmark að þegar hafi orðið vart við að íbúar í sjávarbyggðunum líti erlent starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja hornauga jafnvel þó að starfsfólkið hafi fasta búsetu í Noregi. Hann hafi því verulegar áhyggjur af stöðu mála þegar mikill fjöldi starfsfólks komi erlendis frá við upphaf vertíðar og mikilvægt sé þá að unnt sé að upplýsa íbúana um að allt þetta fólk hafi farið í sýnatöku og sóttkví áður en það kom á staðinn.

Fram kemur í máli Ystmarks að nauðsynlegt sé að dvöl erlenda starfsfólksins á sóttkvíarhótelum verði fyrirtækjunum ekki alltof kostnaðarsöm og þurfi ríkið því að taka meiri þátt í kostnaði en gert hefur verið ráð fyrir. Þá hefur hann einnig áhyggjur af því að hótelin muni alls ekki geta rúmað allan þann fjölda starfsfólks sem þarf að fara í sóttkví við komuna til landsins.

(Fréttin birtist í Fiskeribladet)

 

Deila: