Nýr Vilhelm Þorsteinsson sjósettur

280
Deila:

Nýr Vilhelm Þorsteinsson EA var sjósettur hjá skipasmíðastöðinni Kar­sten­sens Skibsværft í Gdynia í Póllandi hinn 12. júní síðastliðinn. Skrokkurinn var tilbúinn til sjósetningar fyrir átta vikum en vegna Covid-19 heimsfaraldursins var ekki að ráðist í hana fyrr en nú.

Skipið mun leysa af hólmi núverandi Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins fyrir tveimur áratugum. Burðargeta skipsins verður um 3.000 tonn af kældum afurðum.

Togarinn, líkt og forveri hans, er nefndur eftir Vilhelm Þorsteinssyni, skipstjóra, en hér er hann á sínum yngri árum um borð í Harðbak.

„Um er að ræða nýsmíði sem við höfum beðið eftir með töluverðri eftirvæntingu. Skrifað var undir samninga vegna smíði skipsins hinn 4. september 2018 en þann dag hefðu tvíburarnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinssynir orðið 90 ára. Búnaður skipsins verður einstaklega góður, bæði hvað varðar veiðarnar sjálfar og meðferð aflans en einnig hvað varðar vinnuaðstöðu og vistarverur áhafnar,“ segir Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja hf.

Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson skrifa undir samning um smíði á nýjum Vilhelm Þorsteinssyni EA 4.september 2018.

Sjósetningin fer þannig fram að hjólabúnaður er settur undir skrokkinn og hann „keyrður“ út á stóran flotpramma sem er síðan dreginn frá bryggjunni og út á nægilegt dýpi. Sjó er þá dælt í tanka prammans þannig að hann fer á kaf nægilega mikið til þess að skipið fljóti. Það er síðan dregið aftur að bryggju við skipasmíðastöðina.

Srýrishúsið sett á skipið.

Í byrjun síðustu viku, eftir sjósetninguna, voru tvær aðalvélar skipsins, stýrishúsið með einni íbúðarhæð undir og radarmastrið sett um borð. Nokkurra daga vinna er eftir við skipið í Gdynia en það verður svo dregið til Skagen í Danmörku og smíðin kláruð þar. Er búist við að smíði skipsins ljúki vel fyrir jól.

Starfsmenn Karstensens tóku myndband af sjósetningu Vilhelms Þorsteinssonar EA. Hlekkur á myndbandið: Sjósetning Vilhelms Þorsteinssonar EA.

 

Deila: