Öflugur liðstyrkur í veiðieftirliti Fiskistofu

369
Deila:

Fiskistofa réði nýverið sex nýja eftirlitsmenn til starfa í stað eldri starfsmanna sem látið hafa af störfum. Nýju veiðieftirlitsmennirnir eru þeir Einar Tómasson, Guðmundur Ólafsson, Jón Bek, Tryggvi Tryggvason, Ríkarð Ríkarðsson og Sigurður Gunnarsson.

Fiskistofa er með starfsstöðvar á sex stöðum á landinu og dreifast nýju eftirlitsmennirnir á höfuðstöðvar Fiskistofu á Akureyri og á starfsstöðvarnar á Höfn í Hornafirði, í Stykkishólmi og Hafnarfirði.  Einar Tómasson og Guðmundur Ólafsson verða með starfsstöð í Hafnarfirði, Jón Bek og Ríkarð Ríkarðsson  í Stykkishólmi, Sigurður Gunnarsson á Akureyri og Tryggvi Tryggvason á Höfn í Hornafirði.

Fjölbreytt verkefni

Veiðieftirlitið er einn veigamesti þátturinn í starfsemi Fiskistofu og eru störf veiðieftirlitsmanna í stöðugri þróun.  Starfsvettvangur veiðieftirlitsmanna er bæði á sjó og landi.

  •  Á sjó eru helstu verkefni veiðieftirlitsmanna að lengdarmæla fisk og að fylgjast með því að afladagbækur séu rétt út fylltar og í samræmi við veiðar og afla um borð. Þá gera þeir tillögur um lokanir veiðisvæða eftir því sem þurfa þykir.
  • Á landi hafa eftirlitsmenn Fiskistofu  eftirlit með löndun, vigtun og skráningu afla í aflaskráningarkerfi Fiskistofu og fylgjast með veiðarfærum og aflasamsetningu. Þá sinna þeir eftirliti með löndunum erlendra skipa og gera úttektir á afurðum vinnsluskipa auk eftirlits með lax- og silungsveiði.

 

Deila: