Óskað eftir umsögnum um fiskeldi

96
Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum þriggja stofnanna og viðkomandi sveitarfélaga um hvort rétt sé að lýst verði yfir banni við eldi laxfiska af eldisstofni í sjókvíum í Eyjafirði, Jökulfjörðum og í sunnanverðum Norðfjarðarflóa, það er í Viðfirði og Hellisfirði. Erindin eru send á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 en samkvæmt ákvæðinu getur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að fenginni umsögn Fiskistofu, Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar, takmarkað eða bannað fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart fiskeldi.

Nú er í gildi auglýsing nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er lýst óheimilt á tilteknum svæðum og eru Eyjafjörður, Jökulfirðir og sunnanverður Norðfjarðarflói ekki meðal þeirra svæða sem þar eru tilgreind. Ekkert þessara svæða hefur verið burðarþolsmetið og engin rekstrarleyfi eða umsóknir um rekstrarleyfi eru til staðar á þessum svæðum.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heldur opinn fund í Hofi á Akureyri, fimmtudaginn 11.júní nk. klukkan 20.

Þar verða einnig fulltrúar veiðiréttarhafa og fulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

 

Deila: