Óveðrið hamlar veiðum

136
Deila:

Óveðursspáin fyrir næstu daga setur strik í reikninginn hjá skipum Síldarvinnslunnar og Bergs-Hugins. Smáey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í nótt með um 50 tonn eftir stutta veiðiferð og Bergey VE landaði fullfermi í gærmorgun. Ekki er gert ráð fyrir að skipin haldi til veiða á ný fyrr en á sunnudag. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að mjög vel gangi að fiska en nú muni veðurhamurinn taka völdin.

„Við vorum að veiða á Skeiðarárdýpinu, út af Ingólfshöfða og í Sláturhúsinu út af Hornafirði og alls staðar fiskaðist vel. Aflinn var mest þorskur,ufsi, ýsa og skarkoli. Það er allt farið að snúast mjög vel hér um borð í nýja skipinu og við höfum sko ekki undan neinu að kvarta. Framundan eru helvítis læti. Það verður kolvitlaust veður á föstudag og hundleiðinlegt á laugardag þannig að líklega verður ekki farið út fyrr en á sunnudag. En nú er vertíðin framundan og hún er alltaf mikið tilhlökkunarefni. Vertíðin er bara skemmtilegasti tími ársins, svo einfalt er það,“ segir Jón í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Síldarvinnsluskipin Gullver NS og Blængur NK munu einnig leita hafnar vegna veðurs. Ísfisktogarinn Gullver mun væntanlega koma til Seyðisfjarðar í fyrramálið en frystitogarinn Blængur er væntanlegur til Neskaupstaðar í nótt.

 

Deila: