Pönnusteiktur silungur með kúmeni

458
Deila:

Sumum finnst nýjungar vera góðar og svo er vissulega í hæfilegum mæli. En það er líka hollt að líta til baka og sjá hvað áður hefur verið gert. Helga fann í gamalli uppskriftabók tillögu að matreiðslu á bleikju, sem ættuð er frá hinu góða veitingahúsi Laugaási. Uppskriftin er vélrituð á pappír, ekki komin úr tölvuprentara, sem segir að hún sé frá síðustu öld. En gamalt er stundum gott og við mælum með þessari góðu uppskrift, sem við höfum reyndar gert að nokkru leyti að okkar.

Innihald:

800g bleikjuflök, roð og beinlaus.
2 egg
100g ferskir sveppir
fersk steinselja, hálft knippi
2 gulrætur í strimlum
2 dl rjómi
4 msk. hveiti
1 tsk. kúmen
100g rækjur
1 tsk. paprikuduft
salt og pipar

Aðferð:

Skerið flökin í fjóra eða átta hæfilega bita. Veltið þeim upp úr hveiti. Hrærið eggin saman og blandið með salti, pipar, paprikudufti og kúmeni og hjúpið flakabitana upp úr blöndunni. Steikið flökin á snörpum hita í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Leggið til hliðar og haldið heitum. Steikið ferska sveppi, steinselju og gulrótarstrimla á annarri pönnu og hellið þá rjómanum yfir og látið krauma þar til sósan fer að þykkna.
Færið bleikjubitana upp á fallegt fat og hellið sósunni jafnt yfir. Berið fram með soðnum kartöflum og fersku salati að eigin vali.

 

 

Deila: