Sæta mikilli ágjöf misviturra álitsgjafa

123
Deila:

„Árið 2020 var umfram venju, viðburðaríkt. Við lentum í mótbyr, stóðum hann af okkur, og skiluðum okkar til samfélagsins. Reyndar lauk árinu með því að sjávarútvegur og fiskeldi voru um helmingur af vöruútflutningi landsins. Það minnir vissulega á gamla tíma þegar sjávarútvegurinn var nánast upphaf og endir efnahagslegrar hagsældar þjóðarinnar. Á þessu hefur blessunarlega orðið veruleg breyting á undanförnum árum. Aðrar atvinnugreinar hafa verið að eflast og það er einmitt það sem Ísland þarf á að halda. Fleiri öflugar efnahagslegar stoðir. Það skiptir allt máli.“

Svo ritar formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Ólafur Marteinsson, í inngangi að nýútkominni ársskýrslu samtakanna. Þar ritar hann ennfremur:

„Það er samt nokkuð dapurlegt að horfa til þess að sú atvinnugrein, ein fárra útflutningsatvinnugreina sem var í vexti í fyrra, skuli þurfa að sæta mikilli ágjöf misviturra álitsgjafa. Hér á ég að sjálfsögðu við fiskeldið. Það er bæði skiljanlegt og eðlilegt að fólk hafi á því skiptar skoðanir. En við eigum ekki að láta tilfinningarnar stjórna umræðunni að öllu leyti. Það er eins varlega farið í fiskeldi á Íslandi og kostur er og ekki má gleyma því að stór hluti strandlengjunnar er lokaður fyrir fiskeldi. Fiskeldi er mikilvægt, ekki síst í þeim sveitarfélögum þar sem það er staðsett. Það er einnig mikilvægt fyrir þjóðarhag og nemur nú um 10 prósentum af útflutningi sjávarafurða. Það er vel og vonandi mun gæta meiri sanngirni í umræðu um eldið á komandi árum.

Ef einhver hefði spurt mig við upphaf COVID-19 í fyrra; hvaða afleiðingar mun þetta hafa fyrir íslenskan sjávarútveg og fiskeldi? – þá hefði besta ágiskunin verið; ég veit það ekki. Og það hefði verið ærlegt svar. Enginn vissi eiginlega hvað var að gerast og hvernig þetta myndi þróast. En kannski að maður hefði getað sagt sér það. Því sama hvað gerist, þá hættir fólk ekki að borða. Hjá því verður varla komist með góðu móti. En það voru mörg vandamál sem þurfti að leysa. Því gerðum við það sem við gerum á öllum tímum; reyndum að gera sem mest verðmæti úr takmarkaðri auðlind og til þess þarf skilning, úthald og reynslu. Og ekki lét eldið sitt eftir liggja, með metár í útfluttum eldisafurðum. Ég hef alltaf verið stoltur af því að vinna í sjávarútvegi og ég held að við sem heild eigum öll að vera stolt af framlagi okkar til þjóðarhags í fyrra; bæði í hefðbundnum sjávarútvegi og fiskeldi. Við stóðum okkur vel.

Ég tel að okkur beri í sjálfu sér engar sérstakar þakkir fyrir að hafa staðið vaktina á erfiðum tíma. Það gerðu fleiri. En vissulega væri tilbreyting í því að talsmenn þjóðarinnar hefðu kjark til þess að tala um það sem vel er gert á vettvangi sjávarútvegs og eldis. Á því verður þó væntanlega einhver bið.“

 

 

Deila: