Samfelld síldarvinnsla

177
Deila:

Frá því að fyrsta síldin á vertíðinni barst til Neskaupstaðar hinn 11. september sl. hefur vinnsla síldar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar verið samfelld. Í gær var verið að vinna síld úr Beiti NK sem kom með 1.140 tonn í morguninn áður. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra á Beiti og spurði hvernig gengið hefði að fá aflann.

„Það gekk vel. Við fengum aflann í fimm stuttum holum en það var dregið í einn til einn og hálfan tíma. Aflinn var misjafn, stærsta holið gaf 430 tonn en hið minnsta 180. Við hófum veiðarnar í Seyðisfjarðardýpi en fengum mest af aflanum út af Héraðsflóa. Þetta er ágætis síld en misjafnlega stór eða frá 370 og upp í 420 grömm,“ segir Sturla.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 880 tonn af síld og verður landað úr honum strax og lokið verður við að vinna aflann úr Beiti. Aflann fékk Börkur í þremur holum á svipuðum slóðum og Beitir.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldarvinnslan hafi gengið vel.  „Þetta er frábært hráefni sem við erum að fá enda veitt í kálgarðinum hér heima og kemur ferskt og gott til vinnslunnar. Síldin er bæði heilfryst og flökuð “ segir Jón Gunnar.

Ljósmynd Egill Guðni Guðnason

 

Deila: