Sjávarhiti nálægt meðallagi

155
Deila:

Hiti í efri lögum sjávar sunnan og vestan við landið á árunum 2017 og 2018 hefur verið um eða undir langtímameðallagi en um eða yfir meðallagi fyrir norðan og austan landið. Selta hefur lækkað nokkuð frá fyrri árum.  Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand sjávar.

Á Hafrannsóknastofnun er unnið að margvíslegum umhverfisrannsóknum í hafinu umhverfis Ísland. Beinast þær m.a. að því að fylgjast með langtímabreytingum á ástandi sjávar og lífríkis í yfirborðslögum. Skýrslan fjallar um niðurstöður rannsókna á ástandi sjávar árin 2017 og 2018 og þær settar í samhengi við niðurstöður fyrri ára.   Fjallað er um niðurstöður athugana úr ársfjórðungslegum mælingum á föstum mælistöðvum. Gerð er grein fyrir hita,seltu og næringarefnum.

Kort sem sýnir stöðvar þar sem fram fara reglubundnar mælingar og sýnatökur til sjó‐ og svifrannsókna umhverfis
Ísland. Myndin sýnir einnig helstu yfirborðsstrauma við landið (endurgert eftir Héðni Valdimarssyni o. fl. 2012 og Våge o.fl.
2013). Rauðar örvar tákna tiltölulega hlýjan og saltan Atlantssjó, bláar örvar seltuminni og kaldari pólsjó eða svalsjó.

Ísland er við straumamót heitra og kaldra hafstrauma en því valda neðansjávarhryggir auk hnattstöðu landsins. Hryggirnir mynda fyrirstöðu gegn þeim meginhafstraumum sem liggja að landinu. Hlýsjór Norður‐Atlantshafsstraumsins (Golfstraumsins) streymir til norðurs og mætir köldu suðurflæði Austur‐Grænlandsstraumsins og Austur‐Íslandsstraumsins. Lítill hluti hlýsjávarins nær norður fyrir landið og streymir inn á landgrunnið norðan lands. Tiltölulega hlýr Atlantssjór er þannig ríkjandi sjógerð fyrir sunnan land, en kaldari sjór fyrir norðan. Sjórinn fyrir norðan er aðallega myndaður við blöndun þess hluta hlýja Atlantssjávarins sem nær norður fyrir land við kaldari sjógerðir sem koma úr úr norðri.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Deila: