-->

Staða sjávarútvegsins rædd í ríkisstjórn

Sjávarútvegsfyrirtæki landsins eru nú að bregðast við afleiðingum faraldurs Corona veirunnar Covid-19. Eftirspurn eftir ferskum sjávarafurðum í Evrópu hefur nánast hrunið og sú staða leiðir af sér að fiskframleiðendur verða að leita annarra leiða fyrir afurðirnar og draga að auki að draga úr framleiðslu á ferskum fiski. Það hefur í för með sér verulega röskun á vinnslunni og tekjutap, þar sem ferskar afurðir skila þeim mestum ávinningi. Þá munu fyrirtækin hægja á veiðum meðan á þessu stendur.

Að auki þurfa fyrirtækin að sinna sóttvörnum sérstaklega vel og mæta kröfum um leyfilegan hámarksfjölda á hverjum vinnustað. Það gera þau með því að skipta vinnslunni upp í vinnsluhólf, þar sem fjöldi í hverju þeirra er takmarkaður og samneyti á milli þeirra er stöðvað. Óþarfa heimsóknir inn í fyrirtækin hafa verið stöðvaðar og starfsfólk beðið um að fara ekki í óþarfa ferðalög og draga úr samskiptum við annað fólk.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði grein fyrir stöðunni eins og hún horfir við íslenskum landbúnaði og sjávarútvegi á fundi ríkisstjórnarinnar í gærmorgun en ráðuneytið hefur undanfarna daga og vikur fylgst grannt með þróun mála.

Eftirspurn dregist saman

„Kristján Þór greindi ríkisstjórn frá því að eftirspurn eftir ferskum fiski í Evrópu hefur dregist mjög saman vegna stöðunnar og hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fundið fyrir samdrætti í eftirspurn allra tegunda. Augljóst er að þessar umfangsmiklu breytingar á erlendum mörkuðum munu hafa töluvert neikvæð áhrif á íslenskan sjávarútveg og afleidda starfsemi. Unnið er að því að færa framleiðslu úr fersku hráefni í aðra vinnslu. Sum fyrirtæki ætla að reyna að halda sínu striki eða breyta sókn sinni í ákveðnar tegundir, en önnur fyrirtæki hyggjast draga úr sjósókn og framleiðslu fyrst um sinn, í samræmi við samdrátt í eftirspurn markaðarins,“ segir í frétt frá ráðuneytinu.

Eðli málsins samkvæmt breytist staðan hratt og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun fylgjast áfram náið með þróun mála og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að lágmarka efnahagslega neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað og sjávarútveg til skemmri og lengri tíma.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Kolmunnaskipin bíða skimunar

Kolmunnaskipin liggja enn í Norðfjarðarhöfn og bíða áhafnir þeirra eftir niðurstöðu skimunar fyrir Covid-19. Ráðgert er að hal...

thumbnail
hover

Lítil sókn í grásleppuna

Lágt afurðaverð hefur dregið úr sókn í grásleppuveiðar í upphafi vertíðar. Kínverjar kaupa enga grásleppu og hrognaverð er l...

thumbnail
hover

Fiskverð lækkar

Á fundi hagsmunasamtaka sjómanna og útvegsmanna, sem haldinn var 3. apríl 2020, var ákveðið að breyta viðmiðunarverði skv. kjara...