Stefna að landeldi á laxi í Eyjum

259
Deila:

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja og Hallgrímur Steinsson, framkvæmdastjóri, f.h. Sjálfbærs fiskeldis í Eyjum ehf., hafa undirritað samkomulag vegna fiskeldis í Viðlagafjöru á Heimaey. 

Um er að ræða fiskeldi á landi í Vestmannaeyjum þar sem megináhersla verður lögð á sjálfbærni, nýjungar og nýtingu. Gert er ráð fyrir að frummatsskýrsla umhverfismats verði tilbúin um næstu áramót. Vestmannaeyjabær hefur hafið skipulagsvinnu þar sem gert er ráð fyrir framangreindri starfsemi og áætlað er að þeirri vinnu ljúki um næstu áramót. Með samkomulaginu skuldbindur Vestmannaeyjabær sig til þess að úthluta lóð til félagsins á grundvelli samþykkts skipulags.

„Það er ánægjulegt að forráðamenn félagsins sjái tækifæri í nýrri atvinnuuppbyggingu í Vestmannaeyjum þar sem megináhersla er lögð á sjálfbærni og nýtingu og eru umhverfissjónarmið höfð að leiðarljósi. Ljóst er að með starfseminni mun störfum í Vestmannaeyjum fjölga, fyrst vegna framkvæmda og svo þegar rekstur félagsins hefst,“ segir í frétt frá Vestmanneyjabæ.

Deila: