-->

Þokkalegt nudd af blönduðum afla

Frystitogarinn Vigri RE er nú að veiðum á Halamiðum og að sögn skipstjórans, Árna Gunnólfssonar, er þar sæmilegt kropp af mjög blönduðum afla. ,,Við erum búnir að vera hér í einn og hálfan sólarhring. Hér er lítið af þorski og við höfum aðallega verið að fá ufsa og ýsu en einnig þorsk og smávegis af karfa,” segir Árni í samtali við heimasíðu Brims, en veiðiferðin hófst í Reykjavík 17. ágúst sl.

,,Við byrjuðum á Fjöllunum en færðum okkur svo norður í Víkurál. Við vorum svo á Vestfjarðamiðum, síðast á Halanum, áður en við fórum suður til millilöndunar. Við vorum í Reykjavík með um 460 tonn upp úr sjó þann 31. ágúst en fórum svo aftur norður á Vestfjarðamið þegar búið var að landa,” segir Árni en hann segist hafa farið nokkuð víða á þessum hálfa mánuði.

,,Það var skítabræla á Vestfjarðamiðum í tvo til þrjá daga um daginn og það má segja að við höfum hagað seglum eftir vindi því við flýðum austur með norðurströndinni. Lengst fórum við austur á Rifsbanka og Sléttugrunn. Þar var enginn fiskur, a.m.k. fengum við lítinn afla, og veðrið var slæmt eða um 25 m/sek. Hins vegar fengum við góðan ýsuafla á bakaleiðinni, bæði í Reykjafjarðarál og á Hornbanka. Heilt yfir þá hefur þetta verið þokkalegasta nudd af mjög blönduðum afla. Við erum trúlega komnir með 430 tonn til viðbótar því, sem landað var um daginn, og enn er tæp vika í að eigum að vera mættir til löndunar í Reykjavík,” sagði Árni Gunnólfsson.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Ofnbakaður gullkarfi með chili, hvítlauk og...

Nú leitum við til Norðanfisks eftir góðri uppskrift. Fyrirtækið framleiðir gífurlega mikið af fiski sem tilbúinn er til matreiðs...

thumbnail
hover

Tengdamóðirin eftirminnilegasti vinnufélaginn

Maður vikunnar er Ólafsfirðingur búsettur á Dalvík. Hann byrjaði ungur að vinna í fiski hjá Sigvalda Þorleifs, en var síðar á ...

thumbnail
hover

Öflugur liðstyrkur í veiðieftirliti Fiskistofu

Fiskistofa réði nýverið sex nýja eftirlitsmenn til starfa í stað eldri starfsmanna sem látið hafa af störfum. Nýju veiðieftirlit...