Tvær nýjar tegundir þörunga finnast í Surtsey

149
Deila:

Dagana 12. til 15. júlí var farinn leiðangur til líffræðirannsókna til Surtseyjar í samstarfi Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Tveir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, Karl Gunnarsson og Svanhildur Egilsdóttir, tóku þátt í leiðangrinum.

Hafrannsóknastofnun hefur fylgst með landnámi lífvera í fjörunni og á grunnsævi í kringum eyjuna frá því að gos hófst 1963. Í ár beindist rannsóknin að lífríki fjörunnar. Vegna mikils rofs og stöðugrar hreyfingar grjóts og sands í fjörunni, sérstaklega á veturna, hafa litlar breytingar orðið á lífríki fjörunnar frá upphafi. Einærir þörungar nema land á hverju vori og hverfa aftur þegar stormaldan kemur hreyfingu á grjót og sand á haustin. Að þessu sinni fundust þó tvær tegundir þörunga sem ekki hafa áður sést í Surtsey, purpurahimnutegundin Porphyra linearis óx á klöppum neðst í fjörunni og smávaxin blaðlaga grænþörungur Prasiola stipitata óx ofan á steinkolli allra efst í fjörunni.
Ljósmynd Svanhildur Egilsdóttir.

Deila: