Um sjötíu nemendur í Sjávarútvegsskólanum útskrifaðir

92
Deila:

Kennslu í Sjávarútvegsskóla unga fólksins er lokið þetta árið á Austfjörðum. Nemendur sem sóttu skólann voru 71 talsins og var kennt í Neskaupstað, á Eskifirði, Vopnafirði, Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði. Skólinn er starfræktur sem samvinnuverkefni vinnuskóla sveitarfélaganna, Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum. Nemendur í skólanum hafa lokið námi í 8. bekk grunnskólans.

Námið í Sjávarútvegsskólanum er í formi fyrirlestra en einnig eru fyrirtæki heimsótt og verkefni unnin. Fiskvinnslur af ýmsu tagi voru skoðaðar og auk þess farið í heimsókn á netaverkstæði og um borð í skip. Kennarar á Austurlandi voru Þorvaldur Marteinn Jónsson, Særún Anna Brynjarsdóttir og Friðbjörg María Björnsdóttir en þau leggja öll stund á nám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri. Þá komu einnig gestafyrirlesarar við sögu. Margt var gert til að lífga upp á námið og í lok kennslunnar var boðið upp á skemmtilega dagskrá og dýrindis pizzaveislu.

Aðalstyrktaraðilar skólahaldsins á Austurlandi voru Síldarvinnslan hf., Brim hf., Eskja hf., og Loðnuvinnslan hf. Aðrir styrktaraðilar voru Hafnarsjóður Fjarðabyggðar, Vopnafjarðarhreppur og Múlaþing.

„Það er ánægjulegt að fylgjast með árlegri starfsemi Sjávarútvegsskóla unga fólksins en hann á rætur sínar í Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar sem hóf störf árið 2013. Skólinn hefur verið í umsjón Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri frá árinu 2016 og síðustu ár hefur hann fært verulega út kvíarnar. Auk Austfjarða og Norðurlands hefur einnig verið kennt í Reykjavík og á Vestfjörðum síðustu árin. Alls sóttu 360 nemendur skólann í sumar á landinu öllu,“ segir í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Í fyrsta sinn í sumar var kennt í Fiskeldisskóla unga fólksins en hann er starfræktur með sambærilegu sniði og Sjávarútvegsskóli unga fólksins. Kennt var á tveimur stöðum á landinu í Fiskeldisskólanum í sumar; á Djúpavogi og í Vesturbyggð.
Sjávarútvegsskóli unga fólksins á rætur í Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar sem stofnaður var 2013. Á myndinni eru nemendur Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar við útskrift árið 2013. Ljósm. Margrét Þórðardóttir

Deila: