Veður hamlar loðnuleit

Deila:

Skipin þrjú sem nú eru við loðnurannsóknir norður og vestur af landinu þurftu að leita vars í gærmorgun vegna veðurs. Lítið hefur sést af loðnu og leiðangursstjórinn segir í samtali við ruv.is að ljóst að hún sé ekki gengin austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg.

Uppsjávarskipin Börkur NK og Aðalsteinn Jónsson SU hafa leitað loðnu síðan á föstudag. Þau hafa nú farið með landgrunninu frá Austfjörðum og eru komin rétt vestur fyrir Kolbeinseyjarhrygg. Rannsóknarskipið Árni Friðriksson RE hélt vestur með landi og hóf mælingar í Víkurál úti af sunnanveðrum Vestfjörðum.

Ekki fundið mikið af loðnu

„Það hefur nú ekki mikið fundist,“ sagði Birkir Bárðarson leiðangursstjóri í samtali við Samfélagið á Rás 1. „Þeir á Aðalsteini og Berki voru í nótt eiginlega fyrst að koma í loðnu rétt vestan við Kolbeinseyjarhrygginn og við höfum lítið sem ekkert séð hérna í vesturendann. Þannig að það er svosem ekki mikið að sjá enn þá. En það segir okkur aðallega það að hún er ekki enn sem komið er gengin austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg.“

„Alveg brjálað veður“

En nú þarf að gera hlé á rannsóknum í þessum leiðangri vegna veðurs. „Við á Árna vorum að renna inn fjörðinn í Arnarfirði, vorum að leita vars. Það er alveg brjálað veður hérna fyrir utan. Og Börkur og Aðalsteinn eru að fikra sig suður á bóginn, vestan við Kolbeinseyjarhrygginn. Þeir eru í leiðindaveðri þar núna og ég vona bara að þeir komist bráðlega í skjól.“ Og miðað við veðurspá vonar Birkir að þeir komist aftur af stað á morgun. „Við verðum frá í um það bil sólarhring, því miður. En við munum fara út um leið og það er einhver von um að veðrið fari að ganga niður.“

Ekki ljóst hvað þessi rannsókn standi lengi

Og hann segir ekki ljóst hvað þeir verði lengi í þessum rannsóknum. „Með aukinni aðkomu fiskiskipa þá erum við að spila þetta svolítið af fingrum fram. Núna erum við að ná þessari yfirferð. Ef hún þykir gefa efni til nothæfrar mælingar, þá myndum við vilja fara aftur yfir, til að lágmarka óvissu. Sá kafli ætti að vera búinn á innan við viku, ef allt gengur vel. Svo verða ákvarðanir um framhaldið bara teknar út frá því, hvað út úr því kemur. Það er alveg hugsanlegt að við munum fara í fleiri leiðangra í kjölfarið,“ segir Birkir.

 

Deila: