Hollur laxaborgari
Hamborgarar njóta ávalt vinsælda hjá fólki á öllum aldri, enda geta þeir verið matreiddir á mjög fjölbreyttan hátt. Hér bætist ein leið við hamborgaraflóruna, en það er gullinn laxaborgari. Kannski óvenjuleg leið til að matreiða lax, en sannarlega nokkuð vel heppnuð. Og svo er rétturinn afskaplega hollur. Nú er bara að prufa.
Innihald:
4 bitar af laxi, roðflettir og beinlausir. samtals um 600g
2 msk rautt karrýmauk
Ferskur engifer á stærð við þumal
1 tsk sojasósa
1 búnt af ferskum kóríander, helmingurinn saxaður en hitt í laufum
1 tsk matarolía
Sítrónubátar sem meðlæti
Salat:
2 meðalstórar gulrætur
½ stór agúrka eða ein lítil
2 msk hvítvínsedik
1 tsk púðursykur
Aðferð:
Skerið laxinn í smærri bita og setjið í matvinnsluvél með karrýmaukinu, söxuðum engifer og kóríander og sojasósu. Látið vélina ganga þar til laxinn er gróflega hakkaður. Takið þá “deigið” og mótið í fjóra jafna borgara.
Hitið olíu á góðri pönnu og steikið borgarana í 4-5 mínútur á hvorri hlið þannig að þeir eldist í gegn og verði gullnir að utan.
Skerið gulræturnar og agúrkuna í þunnar sneiðar með rifjárni eða ostaskera til dæmis og setjið í skál. Dreypið edikinu og sykrinum yfir og blandið saman þar til sykurinn er bráðnaður. Bætið þá kóríander út í og blandið vel saman. Færið salatið yfir á disk ásamt sítrónubátum og berið fram með borgurunum og hrísgrjónum.