Hörð veður og enginn friður

142
Deila:

Þótt ýmsum þyki nóg um veðráttuna hér heima í byrjun ársins þá blæs víðar. Því hafa áhafnir uppsjávarveiðiskipanna, sem freistað hafa þess að veiða kolmunna í færeyskri lögsögu að undanförnu, fengið að kynnast. Venus NS er eitt þessara skipa og segist Bergur Einarsson skipstjóri, tvívegis hafa orðið að leita vars inni á færeyskum höfnum á aðeins tíu dögum og er rætt var við Berg á heimasíðu Brims, var Venus í vari við Suðurey vegna veðurs.

,,Við fórum að heiman að kvöldi 3. janúar og það má segja að allan tímann hafi verið ótíð. Veður eru mjög hörð hérna og það er enginn friður til að athafna sig. Við reynum að nýta þá glugga sem gefast og einum slíkum veðurglugga er spáð seinni part laugardags. Hann á að vera 18 tímar og gangi spáin eftir ætti að vera friður til veiða fram á sunnudagsmorgun. Reyndar hefur svona gluggum verið spáð áður en okkur reynsla er sú að umræddir gluggar eru líkari lausafögum.“

Að sögn Bergs hafa fengist um 840 tonn af kolmunna í túrum en það segir sitt um veðráttuna að aðeins hafa verið tekin þrjú hol.

,,Þegar við höfum getað verið að þá höldum við okkur á gráa svæðinu syðst og austast í færeysku lögsögunni. Kolmunninn er enn að ganga suður til hrygningar en venjulega deyr veiðin hérna út í kringum 20. janúar. Svo gerist ekkert fyrr en eftir svona viku af febrúar. Þá byrjar kolmunninn að ganga norður eftir í ætisleit. Veiðin er fyrst vestur Írlandi og svo færist hún smám saman norðar,“ segir Bergur Einarsson.

Deila: