Ölduhæðin 10 til 12 metrar
Nýja Bergey VE fór út frá Vestmannaeyjum sl. laugardag og gat tekið eitt prufukast áður en brældi. Komið var í land og farið út á ný aðfaranótt mánudags. Skipið er komið í land og enn og aftur en unnið er að því að stilla og laga búnaðinn um borð eins og þarf að gera á nýjum skipum.
Smáey VE kom inn til Eyja í morgun með fullfermi. Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Egils Guðna Guðnasonar skipstjóra og spurði fyrst um aflabrögð. „Þetta er þokkalegasti afli sem fékkst í vitlausu veðri í Skeiðarárdýpinu. Janúar er búinn að vera skelfilegur veðurfarslega. Það var vitlaust veður allan túrinn að undanskildum 12 klukkutímum. Ölduhæðin í gær var 10-12 metrar og við vorum tvöfalt lengur að sigla heim en eðlilegt má teljast. Við vorum í Skeiðarárdýpinu allan tímann. Það var ekkert veður til að færa sig neitt. Aflinn er blandaður en mest af ýsu, karfa og lýsu,“ segir Egill Guðni.