Páll kominn heim
Hið nýja línuskip Vísis hf. í Grindavík Páll Jónsson kom til heimahafnar í dag. Páll Jónsson GK er 45 metra langur, 10,5 metra breiður og dýpt að aðaldekki er 4,75 m. Páll Jónsson GK 7 er fyrsta nýsmíðin í hálfrar aldar sögu Vísis ehf. í Grindavík en verðmæti smíðasamningsins við undirskrift í árslok 2017 nam tæpum einum milljarði króna. Skipið er sérhæft, þriggja þilfara línuskip og þannig hannað að eitt þilfarið er fyrir aðstöðu áhafnar.
Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis segir að þetta sé stór dagur í sögu félagsins. Smíðin á Páli sé liður í endurnýjun flota félagsins sem hafi verið orðinn nokkuð gamall. Línuskipið Fjölnir hefur verið endurbætt að miklu leyti og Sighvatur að nánast öllu. Þá eru eftir skipin Jóhanna Gísladóttir og Kristín og er síðara skipið næst á endurnýjunarlistanum.