Ágæt þorskveiði í Víkurálnum

100
Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú á miðunum SV af Reykjanesi en að sögn Friðleifs Einarssonar skipstjóra var síðasti túr hreint ágætur.

,,Við byrjuðum veiðar í Víkurálnum og vorum þar allan tímann ef frá er talinn síðasti sólarhringurinn en honum vörðum við á Fjöllunum hér fyrir sunnan,” segir Leifur í samtali á heimasíðu Brims. Markmið veiðiferðarinnar var að veiða þorsk og karfa og leita að ufsa í veiðanlegu magni.
,,Það er búin að vera góð þorskveiði í Víkurálnum en þar er einnig töluvert um karfa. Við vorum því hvort tveggja að fá þorsk og karfa þar til við settum T90 þorskpokann undir. Eftir það fengum við nánast bara þorsk og gátum við haldið veiðum áfram.”
Að sögn Leifs var ákveðið að enda veiðiferðina á Fjöllunum. Það var vænlegt að leita að ufsa þar auk þess sem dálítið vantaði upp á karfaskammtinn.
,,Það er spáð brælu á Vestfjarðamiðum næstu daga og því byrjum við á Fjöllunum í yfirstandandi veiðiferð. Svo líður að því að vetrarvertíð byrji og við höfum oft fengið góð þorskskot s.s. á Eldeyjarbankanum í febrúarmánuði,” segir Friðleifur Einarsson.

Deila: