Ísland með mest af grásleppuhrognum

160
Deila:

Árlegur upplýsingafundur um grásleppumál var haldinn í Kaupmannahöfn 7. febrúar sl.  Mjög góð þátttaka var á fundinum og margt fróðlegt sem þar kom fram. Heildarveiði allra þjóða á árinu 2019 umreiknað í fjölda tunna af söltuðum hrognum losaði 21 þúsund.  Almennt gengu veiðarnar vel hér við land, Grænlandi og Noregi.  Þó lítilsháttar aukning hafi verið hjá Nýfundlendingum á veiðin þar á langt í land með að skila því magni sem þar var veitt hér á árum áður.

Alls jókst heildarveiðin um 11% milli ára og skiptist þannig milli þjóðanna.

 

Ísland 9.433 tunnur
Grænland 8.431 tunnur
Noregur 1.965 tunnur
Nýfundnaland     461 tunna
Danmörk og Svíþjóð 1.000 tunnur

„Hrogn úr grásleppuafla sem veiðist úti fyrir ströndum Svíþjóðar og Danmörku er að mestu leyti seld á fiskmörkuðum þar sem kaupendur eru fiskbúðir og veitingahús.  Í Danmörku er um árlegan viðburð að ræða þegar grásleppuhrogn koma og þau sett á matseðla sem sérstakur réttur (Frisk stenbiterrogn).  Rétturinn nýtur sívaxandi vinsælda – sýrður rjómi með tilheyrandi kryddi í botninn og hrognin sett ofan á og vaffla við hliðina – lostæti,“ segir á heimasíðu Landsambands smábátaeigenda. Hvernig væri nú að veitingageirinn á Íslandi tæki þann danska sér til fyrirmyndar?
Ljósmynd Þorgeir Baldursson

 

Deila: