Metár í fiskafóðursframleiðslu Laxár

307
Deila:

Síðasta ár var metár í framleiðslu Fóðurverksmiðjunnar Laxár á Akureyri en þá framleiddi fyrirtækið 11.500 tonn af fiskafóðri og velti 2,3 milljörðum króna. Viðskiptavinir eru í dag að stærstum hluta íslensk fyrirtæki í landeldi á fiski og framleiðir Laxá fóður fyrir fiska allt frá seiðum til sláturstærðar. Verksmiðjan hefur að hámarki um 20.000 tonna afkastagetu á ári og segir Gunnar Örn Kristjánsson, framkvæmdastjóri, að raunhæft markmið sé að ná 15.000 tonna ársframleiðslu innan fárra ára. Fóðurverksmiðjan Laxá var stofnuð árið 1991 á grunni Ístess hf. sem þá varð gjaldþrota. Síldarvinnslan í Neskaupstað er meirihlutaeigandi en aðrir hluthafar eru Akureyrarbær og fjárfestingasjóðurinn Tækifæri. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu og sölu á fóðri til fiskeldisfyrirtækja og fóður til bleikjueldis er um helmingur heildarframleiðslunnar í dag. Um fjórðungur er framleiðsla á fóðri fyrir seiðaeldi. Laxá hefur allt frá upphafi haft sterka stöðu á innlendum markaði fyrir fóður til landeldis og er í dag með um 80% markaðshlutdeild í þeim hluta greinarinnar.

Áherslan á landeldið

Frá stofnun hefur fóðurframleiðsla Laxár verið nokkuð sveiflukennd að magni til. Hún náði yfir 10 þúsund tonn í fyrsta sinn árið 2007 þegar fyrirtækið framleiddi fóður fyrir laxeldi í sjó en þá voru sjávarútvegsfyrirtækin Samherji hf. og Grandi hf. umsvifamikil í þeirri starfsemi. Eftir að þau fyrirtæki drógu sig út úr sjóeldinu kom niðursveifla en síðan jókst salan á nýjan leik upp úr árinu 2010 með stigvaxandi sjóeldi annarra fyrirtækja. Aftur var niðursveifla þegar sjóeldisfyrirtækin fóru að skipta yfir í fituríkara fóður fyrir lax sem Laxá getur ekki framleitt með núverandi tækjabúnaði. Síðan þá hefur fyrirtækið lagt höfuðáherslu á þjónustu við landeldisfyrirtækin með framleiðslu á fóðri úr innlendum hráefnum að stærstum hluta, fyrst og fremst fiskimjöli og lýsi en þessi hráefni eru mun hærra hlutfall í fóðursamsetningunni hjá Laxá en í innfluttu fóðri.

„Við skoðuðum á sínum tíma möguleika á að breyta verksmiðjunni og stækka til að geta framleitt fituríkara fóður fyrir laxeldi í sjó og fylgt þeirri þróun eftir. Niðurstaðan var að það væri of kostnaðarsamt skref fyrir ekki stærra fyrirtæki. Þess í stað einbeitum við okkur að núverandi framleiðslu og höfum notið þess að landeldið hefur verið að vaxa, þó minna hafi borið á því en í sjóeldinu,“ segir Gunnar Örn en þrátt fyrir að verksmiðjan sé komin til ára sinna segir hann framleiðslutækjum vel við haldið og verksmiðjuna mjög tæknivædda. Í heild eru 9 starfsmenn hjá Fóðurverksmiðjunni Laxá og er framleitt í 12 tíma á tveimur vöktum alla virka daga.

Fiskeldið komið fyrir vind

„Allt fiskeldi hefur verið að aukast á Íslandi síðustu ár, bæði sjóeldi og landeldi. Fiskeldið hefur gengið í gegnum sveiflur en ég er ekki í nokkrum vafa um að nú er þessi grein komin fyrir vind hér á landi og leiðin liggur bara uppávið,“ segir Gunnar Örn sem hefur stýrt Laxá frá árinu 2007 en var áður vinnslustjóri í norsku laxeldisfyrirtæki um fjögurra ára skeið.

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að sjóeldi á laxi geti byggst upp á Íslandi og skilað miklum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið. Á síðustu árum hefur tvennt farið saman, þ.e. betri seiðagæði og góðar aðstæður á afurðamörkuðum. Og það er ekkert sem bendir til að þessi atriði séu að fara breytast á næstunni,“ segir Gunnar og bendir á að ef allt gangi að óskum varðandi þau seiði sem sett hafi verið út í sjókvíar í fyrrasumar þá fari framleiðsla í laxeldi að nálgast 50 þúsund tonn innan tveggja ára.

„Vöxturinn verður mjög mikill á næstu árum og við erum komin með fjársterka og þolinmóða norska fjárfesta í fiskeldið sem hafa góða þekkingu á sjóeldi laxfiska og vilja til að gera hlutina vel. Það munu koma upp áföll í þessum rekstri líkt og öðrum búskap, það verður ekki komist hjá því að missa einhvern lax vegna veðurs auk þess sem óhöpp í eldinu munu koma upp. Þegar við sjáum einhver slík óhöpp verða í fiskeldinu hér heima er það blásið upp í vanþekkingu. Vissulega er slæmt að missa fisk en er örugglega gert ráð fyrir því í rekstraráætlunum vegna eðlis starfseminnar. Við skulum ekki gleyma því að lax er mjög verðmæt og eftirsótt afurð auk þess sem lax nýtir fóður einstaklega vel og skilar gæða próteinum sem mannfólk vill neyta.“

Landeldið líka í sókn

Gunnar Örn segir landeldi hafa byggst farsællega upp hér á landi og þar séu sterk fyrirtæki að baki. Árangurinn endurspeglist t.d. í því að Íslendingar séu stærsti framleiðandi á eldisbleikju í heiminum. „En landeldið hefur á undanförnum árum verið svolítið í skugganum af sjókvíaeldinu hvað uppbygginguna varðar. Þar er árangurinn samt eftirtektarverður og ég sé að hjá okkar viðskiptavinum hefur framleiðslan tvöfaldast á 10 árum. Það eru auðvitað tækifæri í uppbyggingu á landeldi fyrir lax, en það verður alltaf kostnaðarsamara og nánast útilokað að koma öllu því magni sem er í sjóeldi yfir í landeldi.“

Laxá hefur hafið dreifingu á fóðri með sérstökum tankbíl. Fóðrinu er þá dælt inn á fóðurtanka þeirra fyrirtækja sem geta tekið þannig á móti fóðrinu. Við það sparast töluverður umbúðakostnaður og er aðferðin umhverfisvænni en flutingur á fóðri í pokum eða sekkjum.

Nýtt fóðurdreifingarkerfi

Líkt og áður segir mun Laxá einbeita sér að fóðurþjónustu við landeldi og er þessa dagana að umbylta afhendingu á fóðrinu til viðskiptavina. Fyrirtækið fjárfesti nýlega í stórum fóðurvagni og í stað þess að fóður fari sekkjað í gámum til stöðvanna verður því nú keyrt í tankbíl og dælt beint í fóðursíló þeirra. „Við gerum ráð fyrir að meirihluta fóðurs verði dreift með þessum hætti þó sumir vilji áfram fá fóður í stórsekkjum eða minni pokum. En þetta er líka umhverfismál þar sem þetta sparar plastumbúðir og bretti,“ segir Gunnar Örn.
Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri. Baðið er gefið út af Ritformi og er því dreift til fyrirtækja á öllu landinu. Blaðið má einnig nálgast á heimasíðu Ritforms, ritform.is

Deila: