Kolmunnaskipin eru byrjuð að landa

102
Deila:

Margrét EA kom með liðlega 2.000 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar seint í gær og litlu síðar kom Bjarni Ólafsson AK með um 1.850 tonn til Seyðisfjarðar. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti NK, en skipið var að toga á kolmunnamiðunum á gráa svæðinu suður af Færeyjum.

„Við erum komnir með rúm 1.500 tonn og erum að fara að hífa. Ég held að það sé mjög gott í, allavega 400 tonn, en aflinn er ekki kominn um borð fyrr en hann er kominn um borð eins og einhver góður maður sagði. Þetta lítur vel út hérna; gott veður og meira að sjá í dag en í gær. Það eru mörg skip að veiðum hérna, ég held að þau séu um 50 talsins. Hér eru grænlensk, færeysk, og rússnesk skip og svo er hér einn Norðmaður auk íslensku skipanna. Þessi floti dreifðist í gær á um 20 mílna breitt svæði,“ segir Tómas.
Ljósmynd Helgi Freyr Ólason.

Deila: