Á sama báti og í sömu flugvél

236
Deila:

„Sjávarútvegur hefur verið grunnatvinnuvegur Íslendinga um langan aldur og ekki eru mörg ár síðan sjávarafurðir voru langstærsta uppspretta gjaldeyris. Á þeim tíma var atvinnulífið einhæfara en það er í dag og mun meira háð viðkvæmum auðlindum hafsins og ytri markaðsaðstæðum fyrir sjávarafurðir. Miklar breytingar hafa orðið í þeim efnum á þessari öld sem meðal annars má sjá í samsetningu á útflutningstekjum. Meginstoðirnar sem nú má sjá reiða sig einnig á náttúruauðlindir landsins; stóriðjan á raforku og ferðaþjónustan á náttúru. Hér hefur einnig sprottið upp þekkingariðnaður, eins og hátæknilausnir fyrir sjávarútveg og matvælaframleiðslu, sem hefur þróast í samvinnu við sjávarútveg. Þá má nefna fiskeldið, sem hefur verið í miklum vexti undanfarin ár. Þar felast enn frekari tækifæri til verðmætasköpunar í framtíðinni. Efnahagslegur styrkleiki landsins hefur þar með stóreflst á þessari öld með fleiri og fjölbreyttari grunnstoðum,“ ritar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í pistli á heimasíðu félagsins. Þar ritar hún ennfremur:

„Tilvist annarra atvinnuvega er háð starfsemi grunnatvinnuvega en ekki öfugt, að minnsta kosti ekki í eins miklum mæli. Jafnframt þurfa grunnatvinnuvegir, strangt til tekið, ekki hver á öðrum að halda. Ferðaþjónusta þarf til dæmis ekki á málmbræðslu eða fiski að halda. Og fiskurinn þarf hvorki málmbræðslu né ferðamenn, enda um 98% af íslensku sjávarfangi flutt á alþjóðlegan markað. Og fólk ferðast þrátt fyrir aflabrest eða lækkandi heimsmarkaðsverð á áli. Hvað sem þessu líður, geta þessar atvinnugreinar verið lyftistöng hver fyrir aðra.

Fiskur og ferðamenn
Ferðaþjónustan um heim allan er mikilvægur markaður fyrir matvæli og gefur góðar tekjur fyrir slíka framleiðslu. Hér á Íslandi er gnægð af góðum innlendum mat. Þegar ferðamenn fá að njóta hans aukast vonandi líkurnar á því að þeir kíki eftir honum þegar heim er komið. Þá eflist matvælaframleiðsla á Íslandi og við bætist uppspretta gjaldeyris sem styrkir efnahaginn og eykur hagsæld. Nefna má fisk, lambakjöt og skyr.

Undanfarin ár hefur verið ágætis gangur í ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Nú slær í bakseglið hjá báðum greinum, þótt vandi ferðaþjónustunnar sé stórum alvarlegri. Þá er gott til þess að vita að þær milljónir ferðamanna sem hingað hafa komið á undanförnum árum, kunna að hafa gætt sér á íslenskum fiski. Það styrkir söluna í útlöndum. Á sama hátt er ekki loku fyrir það skotið að íslenskur fiskur hafi með einhverjum hætti glætt áhuga útlendinga á að koma hingað. Reyndar verður það að teljast líklegt, enda margir útlendingar sem tengja Ísland við fisk.

Þá er augljóst að þegar flogið er til fleiri áfangastaða og tíðar en áður eykst flutningsgetan og nýir erlendir markaðir opnast fyrir íslenskar sjávarafurðir. Það eru mikil verðmæti fólgin í því að koma fiski hratt á markað, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Þrátt fyrir að minna sé flutt með flugi en skipum, er verðmæti útflutnings með flugi mun meira á hvert kíló. Í fyrra var verðmæti ferskra afurða sem fluttar voru með flugi um 31 milljarður króna, sem er tvöfalt meira en verðmæti þeirra var á föstu gengi á árinu 2010. Á sama tímabili fór magnið úr 15,6 þúsund tonnum í um 21,5 þúsund tonn, sem jafngildir tæplega 40% aukningu. Verðmætaaukningin var því miklu meiri en magnaukningin.

Vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustu á undanförnum árum hefur verið hægt að koma ferskum fiski á markað nánast hvert sem er, á hverjum degi, en stór hluti afurðanna var fluttur út með farþegaflugi. Þetta leiðir hugann að fjölgun áfangastaða á undanförnum árum. Árið 2012 var flogið til 14 áfangastaða allt árið, en 50 árið 2018 þegar mest lét. Ef allir áfangastaðir eru teknir með í reikninginn þá voru þeir 54 árið 2012 en um 100 árið 2018. Nýr áfangastaður getur í mörgum tilfellum þýtt nýjan markað fyrir fisk, eins og áður segir. Öflug ferðaþjónusta skapar því ekki aðeins tekjur fyrir þjóðarbúið vegna eigin starfsemi. Öflug ferðaþjónusta er aukinheldur stór þáttur í því að auka enn frekar verðmæti íslenskra sjávarafurða, með flutningi á ferskum fiski á hátt borgandi markaði.

Vegna COVID-19 er þetta því miður ekki svona í dag. Verkefnið framundan er ærið og það er mikilvægt að standa vörð um öfluga og sjálfbæra ferðaþjónustu. Hún hefur ekki aðeins verið nauðsynleg viðbótarstoð og uppspretta gjaldeyris fyrir okkur Íslendinga, heldur hefur hún einnig stutt við aukna gjaldeyrissköpun annarra grunnatvinnuvega. Það má síst vanmeta verðmæti sem felast í því þegar grunnatvinnuvegir hafa viðlíka stoð hver af öðrum. Það er hreint ekki sjálfgefið.“

 

Deila: