Hoffell í slipp í Færeyjum

202
Deila:

Hoffell er komið í slipp í Þórshöfn í Færeyjum. Var það tekið upp þriðjudaginn 2. júní og framundan er hefðbundinn málningarslippur, þ.e botn og síður hreinsaðar og málaðar auk annarrar málningarvinnu. Þá verður skipið öxuldregið, gert við lensilagnir ásamt fleiri verkum sem gott er að vinna við þegar skipið er á þurru landi. Þá verður hafin undirbúningsvinna vegna skipta á kælikerfi en sú aðgerð verður framkvæmd í áföngum.

Samkvæmt áætlun átti umrædd undirbúningsvinna að fara fram í apríl s.l. en frestaðist vegna Covid 19. Þegar Hoffell kom til Færeyja fóru frændur okkar, Færeyingar, fram á að taka sýni úr mannskapnum til að skima eftir kórónaveirunni og þrátt fyrir að áhöfnin hefði farið í slíka skimun áður en þeir fóru utan og með vottorð uppá það, vildu þarlend yfirvöld taka sýni líka. Aldrei of varlega farið. „Það þykir nú ekki alltaf eftirsóknarvert að vera neikvæður, en í þessu samhengi er það sannarlega,” sagði Kjartan Reynisson útgerðarstjóri, í samtali á heimasíðu LVF, staddur í Færeyjum með tvö vottorð um heilbrigði uppá vasann.

Deila: