Rólegt á humrinum

130
Deila:

Humarvertíðin fer hægt af stað, enda kvóti aldrei verið minni. Leyfilegt er að taka 69 tonn miðað við slitinn humar, þótt humrinum sé alla jafna landað heilum. Í góðu ári hefði þetta verið þokkalegur skammtur fyrir einn bát. Sama og engin veiði hefur verið á vestursvæðinu, en þokkaleg veiði fyrst fyrir austan. Aflinn er nú kominn eitthvað yfir 30 tonnin. Sjö bátar hafa landað humri það sem af er og eru nú allir bátarnir á austursvæðinu.

500 til 600 kíló í holi

„Þetta er afskaplega rólegt. Við byrjuðum eftir páska. Þetta var alveg viðunandi fyrstu túrana, en síðan hefur þetta verið tregt, 500 til 600 kíló og minna miðað við slitinn humar. Það er verið að toga í fimm og hálfan tíma. Við erum í Hornafjarðardýpinu núna en í maí höfum við verið stóran hluta í Breiðamerkurdýpinu, kringum Kvískerjahrygginn,“ sagði Ragnar Borgþór Torfason, skipstjóri á Þóri SF þegar rætt var við hann nýlega.

„Við komum út í gærmorgun og búnir að taka þrjú höl, þetta er bara rólegt og ég er að fara að hífa þetta núna og reikna með að færa mig eitthvað. Þetta er bara alveg ágætis humar en það sést alveg smátt í þessu, svo það er einhver nýliðun. Við höfum verið að taka prufur fyrir þá í vinnslunni og þeir hafa verið að segja að það sé dálítið af karli í þessu. Við erum með tæplega 30 tonna kvóta í ár á Þóri og Skinney miðað við slitið og ég held að við séum alla vega hálfnaðir, við megum veiða sýnist mér rúm 14 tonn við að fara eitthvað inn á næsta árs kvóta.

Bara fiskur á vestursvæðinu

Sunnlendingarnir hafa verið að prófa vestursvæðið, en þar er allt fullt af fiski og engan humar að hafa svo þeir eru komnir austur og voru að kasta í Meðallandsbugtinni í morgun. Það var alveg sama á hvaða bleyðu þeir voru þarna vestur frá, bara fiskur. Ég veit hvort þeir voru bara að ná karinu í túrnum, sem eru bara einhver 30 til 40 kíló. Það hangir enginn á því og svo mega þeir heldur ekki liggja svona í fiski.“

Humaraflinn hefur farið hratt minnkandi undanfarin ár og vantað mikið upp á að kvótinn næðist. Nýliðun í stofninum hefur brugðist og því hefur kvótinn verið skorinn niður og veiðisvæðum lokað. „Vertíðin í fyrra var mjög stutt hjá okkur. Við vorum að koma úr breytingum og byrjuðum ekki fyrr en eftir sjómannadag, tókum einhverja níu túra. Það var allt tekið á vestursvæðinu, en nú höldum við okkur fyrir austan.

Þorskurinn að éta humarinn

„Við verðum að vona að veiðin lagist einhvern tíman fljótlega en ég er ekki viss um að það komi einhver kraftur í þetta í sumar. Við verðum að vona að botninum sé náð. Nú veit maður ekkert hvað er að ske í Jökuldýpinu og Lónsdýpinu. Þar er lokað annað sumarið í röð og svo eru dýpin lokuð fyrir togveiðum á veturna. Þetta fær því mikla friðun, en kannski er þorskurinn að éta humarinn, maður sér alveg humar í honum. Það mætti alveg veiða meira af honum,“ segir Ragnar.

Deila: