Báturinn þarfasti þjónninn

372
Deila:

Í vetur endursmíðuðu  Hafliði Aðalsteinsson og tveir aðrir úr Félagi áhugamanna um bátasafn Breiðarfjarðar gamlan bát fyrir sjávarútvegsfyrirtæki á Hellissandi og Rifi. Það er bátur sem heitir Ólafur Skagfjörð og er sá bátur sem síðast var róið undir Jökli, frá Fjallasandi, sem árabátur. Hann var smíðaður í Bjarneyjum 1885 og hefur verið á safninu þar. Svo var ákveðið gera hann í stand og það eru útgerðarfélög sem kosta þetta. Þá langar til að setja hann á flot og róa honum á sjómannadaginn. Hann var tilbúinn fyrir þann tíma að öllu leyti með öllum seglabúnaði.

„Þetta er áttæringur og því dálítið stór bátur, en menn notuðu mikið sexæringa í útróðrum þarna, því þeir gátu ekki verið með stóra báta í þessu. Það var ýmist talað um lítinn eða stóran sexæring og áttæring, en þessi bátur er alveg um átta metrar að lengd. Honum var svo breytt í vélbát á sínum tíma, en nú erum við að gera hann aftur að segl- og árabát og búnir að smíða allt í hann. Þetta er skemmtilegt verkefni og við reynum að gera hann eins og hann var upphaflega og styðjumst meðal annars við Sjávarhætti Lúðvíks Kristjánssonar. Þar getur maður leitað fanga, því þegar ég var að læra bátasmíðina voru bara vélbátar og þeir eru töluvert frábrugðnir árabátunum. Árabátarnir eru til dæmis með höggnum böndum og alls konar frágangur þar sem er öðru vísi en í vélbátunum,“ segir Hafliði, sem er bátasmiður og formaður félagsins.

Ekki meðfædd kunnátta

Áhugi á smíði báta að gamalli fyrirmynd og og að gera upp gamla báta er töluverður, en viðfangsefnið getur verið snúið.  „Við í Bátasafninu höfum verið að halda nokkuð regluleg námskeið í bátasmíði, annars vegar fyrir Iðu og Síldarminjasafnið á Siglufirði hins vegar. Þessi námskeið hafa verið ágætlega sótt. Námskeiðin sem við erum með hjá Iðu eru stutt, bara tveir eða þrír dagar, svo höfum við verið með lengri námskeið á Siglufirði. Þau skila alltaf meiru því þetta er seinleg vinna og matur getur ekki sýnt mjög mikið á tveimur dögum, en snöggtum meira á fimm dögum. Við vitum að þessi námskeið hafa dugað sumum til að koma sér af stað. Við höfum líka verið með námskeið á Reykhólum sem var tvær vikur. Það var orðið óþarflega langt. Það er betra að vera með þau styttri og hafa svo möguleika á því að menn geti komið aftur. Þetta hefur þróast svona hjá okkur og gengið ágætlega. Við erum búnir að gera þetta í nokkur ár og það eru komnir um hundrað manns á þessi námskeið.  Það er töluverður áhugi á þessu og að halda í þessa gömlu smíði. Það vefst eðlilega svolítið fyrir mönnum að gera þetta. Þessi kunnátta er ekki meðfædd neinum, hana þarf að læra. Ég lærði þetta hjá pabba og hann af afa og ég er sjöundi ættliðurinn með þessa kunnáttu.

Kom með vor- eða haustskipi

Langafi minn sem smíðaði báta heima í Hvallátrum, Ólafur Bergsteinsson, var duglegur við að útvega sér rekavið til að nota í máttarviðina. Menn fluttu hins vegar byrðinginn inn frá útlöndum og fengu hann þá í réttri þykkt og var þá kantskorið og kölluðu það varborð. Langafi minn notaði líka heimasmíðaða nagla, sem gerðir voru í eldsmiðju bæjarins. Þegar pabbi fer svo að smíða 1941 eða 1942, var megnið af efninu innflutt, en hann notaði þó alltaf eitthvað af rekavið í beygjur ofan í böndin þar sem var þrengst. 1946 fær hann svo vélar og gat þá þykktarheflað og notað bandsög og var það algjör bylting. Þangað til var viðurinn fluttur inn í réttum þykktum og það þurfti að panta með árs fyrirvara og kom hann annaðhvort með vor- eða haustskipi. Núna er hægt að panta allt efni að utan, en það er enginn sem liggur með  eik eða smíðafuru sem passar í báta. Það verður að panta allt með góðum fyrirvara.“

60 gamlar bátavélar

Við snúum okkur þá að Bátasafni Breiðafjarðar að Reykhólum. Þar er töluverður fjöldi báta og véla úr bátum. „Við erum alltaf að sinna þessu eitthvað og höfum bátasafnið opið á sumrin í sama húsnæði á Reykhólum. Við höfum bætt við okkur á síðustu árum, gömlum bátavélum. Þær eru um 60 og eru uppstilltar á neðri hæðinni í safninu . Þetta eru vélar úr litlum bátum 3 til 25 hestafla vélar. Flestar gamlar, frá 1940 til 1950, bæði bensín- og dísilvélar. Fáar gangfærar en líta vel út margar hverjar, en aðrar þurfa hressingu eins og gengur.“

Hafliði segir að mikið sé til að gömlum bátum og vélum, en vandinn sé sá að alltaf vanti pláss. Bátarnir þurfi mikið pláss og þeir hafi gamla hlöðu til að geyma báta, sem ekki sé pláss fyrir í safninu, en þeir geti ekki tekið við öllum sem þeim býðst. Sumir bátar séu í það slæmu ástandi að þeir verði ekki gerðir upp nema hreinlega endurbyggja þá, eða smíða eftir þeim. Yfirleitt sé hægt að gera eftir þeim skapalón og síðan smíða eftir því.

Borinn og barnfæddur Breiðfirðingur

Hafliði er borinn og barnfæddur Breiðfirðingur fæddur og uppalinn á Hvallátrum sem er eyja úti á Breiðafirði. Hann þekkir því vel til bátasmíðinnar og notkunar bátanna, enda ólst hann upp við það. „Við erum fimm bræður og notum þessa gömlu báta svolítið og förum stöku sinnum á þeim út í eyjarnar að gamni okkar. Við erum með nokkra sjófæra sem bæði tilheyra safninu og í einkaeigu og eru með vél. Svo eru til tveir sjófærir árabátar á safninu og við höfum sett þá á flot stöku sinnum. Þá er ýmist siglt eða róið. Menn ólust ekki upp við seglin nema mjög lítið, en ég prófaði þetta aðeins með afa að sigla litlum bát, en ekki nóg til þess að maður lærði þetta almennilega. Sú kunnátta hefur glatast að mestu.“

Báturinn þarfasti þjónninn

„Þetta eru mikið breiðfirskir bátar, sem  voru smíðaðir við fjörðinn einhvers staðar. Það voru bátasmiðir hér og hvar við fjörðinn, en báturinn var þarfasti þjónninn við Breiðafjörð á fyrri árum. Hann var notaður til ferðalaga, flutninga og veiða. Mest var um fjögurra manna för, sem voru til á flestöllum jörðum sem  áttu land að sjó. Bæði höfðu jarðirnar hlunnindi og veiðiskap og voru bátarnir notaðir í verslunarferðir, en aðal verslunarstaðurinn á Breiðafirði var lengi Flatey. Menn notuðu því bátana til að fara í verslunarferðir með afurðir og sækja nauðsynjar.

Þetta voru yfirleitt alltaf litlir bátar þessi fjögurra manna för, þeir voru léttir og menn gátu dregið þá upp og niður sjálfir, en réðu ekki við stærri báta á venjulegum bæjum. Það er mikill munur á flóði og fjöru við Breiðafjörð og það þurfti alltaf að teyma bátana í fjörunni, upp eða niður,“ segir Hafliði.

Rekstur safnsins er erfiður, en það nýtur einhverra styrkja og aðgangseyris yfir sumarið, það er mikil sjálfboðavinna í kringum þetta. Í tengslum við safnið er upplýsingamiðstöð fyrir sveitarfélagið. Afgreiðslufólk hjá safninu sinnir því starfi líka.

Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri sem Ritform gefur út. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land, en þá má einnig nálgast á heimasíðu útgáfunnar; https://ritform.is/

 

 

Deila: