Minna flutt utan frá Færeyjum

105
Deila:

Útflutningur sjávarafurða á fyrsta fjórðungi þessa árs frá Færeyjum hefur dregist saman um tæplega þriðjung miðað við sama tímabil á síðasta ári. Samdrátturinn er í öllum helstu fiskitegundum nema laxi og kolmunna. Útflutningur á kolmunna hefur þvert á móti þróuninni í öðrum tegundum, nærri tvöfaldast. Farið úr 11.800 tonnum í 23.100 tonn. Skýringin á því er mikil aukning kolmunnaveiða miðað við sama tíma í fyrra.

Mestur er samdrátturinn hlutfallslega í makríl. Þar fellur magnið um 40%, fer úr 15.200 tonnum í tæp 9.200 tonn. Útflutningur á síld fellur úr 8.200 tonnum í 5.800 eða um 29%. Af þorski fóru utan 5.700 tonn í ár, sem er samdráttur um 25%. Í ýsunni féll magnið um 26%, fór úr tæpum 2.000 tonnum í 1.500 tonn.

Útflutningur á laxi heldur sínu. Nú fóru utan 15.500 tonn á móti 14.400 tonnum í fyrra. Útflutningur á ufsa minnkaði um 6%, 19% fall varð í sölu á grálúðu.

Sé litið á verðmæti útflutningsins lækkar það minna en magnið, eða um 19%. Útflutningsverðmætið nú er um 35,5 milljarðar íslenskra króna, en var á sama tíma í fyrra 43,6 milljarðar. Annars eru breytingar á verðmæti í nokkru samræmi við magnið. Laxinn skilar eins og áður langmestu verðmæti, eða um helmingi heildarinnar. Það er 18,3 milljörðum króna. Samt lækkar útflutningsverðmæti laxins um 7%, þrátt fyrir 8% aukningu í magni. Það sýnir greinilega lækkun á meðalverði milli þessara tímabila.

 

Deila: