Hafa áhyggjur ónógu dýpi í Vestmanneyjahöfn

93
Deila:

Útvegsbændur í Vestmannaeyjum hafa talsverðar áhyggjur af því að dýpi hafnarinnar sé ekki nægjanlegt. Þetta kom fram í bréfi sem þeir sendu til framkvæmda- og hafnarráðs og tekið var fyrir á fundi þess. Frá þessu er greint á fréttavefnum eyjafrettir.is

„Stór skip með mikla djúpristu eiga oft í talsverðum vandamálum með að athafna sig í höfninni vegna þess að dýpið er ekki nægilegt. Oft þarf að sæta lagi að koma þessum skipum að bryggju þegar lágsjávað er og í einhverjum tilvikum er það ómögulegt. Þetta getur valdið útgerðum miklum vandræðum þegar mikið liggur við í löndun og vinnslu á hráefni og tafið skip frá veiðum,“ segir í bréfinu.
Þá kemur einnig fram að aðskotahlutir séu á botni hafnarinnar sem valdið geta tjóni á botni, skrúfum og stýri skipa. Til að mynda hafi dekkjastæða farið í skrúfuna á Ísleifi VE í byrjun júlí. „Það tilvik hefði getað endað í stórtjóni og mildi að ekki fór verr,“ segir í bréfinu.

Í svarbréfi undirrituðu af Ólafi Snorrasyni, framkvæmdarstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs, segir að óverulegar breytingar á dýpi sé að sjá ef bornar eru saman dýpistölur frá 2015 og í maí 2020. „Vissulega eru einhverjar breytingar en þær eru óverulegar og alltaf er eitthvað efni á ferðinni innan hafnar. Ljóst er að sandburður inni í höfn er hverfandi miðað við það sem áður var,“  segir í svarbréfinu. Þá segir að hönnunardýpi hafnarinnar sé almennt 8 metrar og að Vestmannaeyjahöfn fylgist vel með dýpinu og grípi til ráðstafana ef þurfa þykir.
Varðandi aðskotahluti mun höfnin skoða hvort hægt sé að kortleggja hvort eitthvað sé í höfninni sem skaðað gæti skip sem eru á ferðinni.

Deila: