Rauðspretturúllur með krabbakjöti

218
Deila:

Nú fáum við okkur rauðsprettu. Hún er alveg yndislegur matfiskur með afar sérstætt bragð og þess vegna má ekki krydda hana um of. Þá tapast bragðið góða. Að þessu sinni erum við með uppskrift að rúllum fylltum með krabbakjöti og meðlæti. Aðferðin er einföld og rétturinn hollur og góður.

Innihald:

800g rauðsprettuflök roð-og beinlaus

1 msk. ólívuolía

1 laukur, smátt saxaður

4 geirar hvítlaukur, marinn

250g krabbakjöt úr dós

3 msk. rjómaostur

1 tsk. sítrónupipar

sjávarsalt og svartur nýmalaður pipar

2 msk. graslaukur smátt saxaður

Sítrónusmjörsósa

2 msk. smjör

2 msk. sítrónusafi

Aðferðin:

Hitið ofninn í 190 gráður

Hellið ólívuolíunni á meðal stóra pönnu og stillið á miðlungshita. Bætið lauknum út á og mýkið hann. Bætið þá hvítlauknum út á og loks smátt söxuðu krabbakjöti, rjómaosti sítrónupipar, graslauknum og salti og svörtum pipar eftir smekk. Hrærið vel saman og takið síðan af pönnunni og látið kólna.

Beinhreinsið og roðrífið flökin, hreinsið þau  og skerið í hæfilegar lengjur og leggið á bretti með roðhliðina upp. Jafnið krabbamaukinu í þykku lagi á flökin

Rúllið flökunum upp og leggið þau í vel smurt form með samskeytin niður. Ef þess þarf er gott að nota tannstöngla til að halda rúllunum saman.

Bræðið smjörið og blandið sítrónusafanum saman við það. Kryddið smávegis með salti og pipar. Jafnið sósunni yfir kolarúllurnar.

Bakið rúllurnar í 20-25 mínútur, bökunartíminn fer nokkuð eftir þykkt flakanna og ef þau eru þunn ættu 15 mínútur að vera nóg. Gott er að ausa sósunni yfir rúllurnar af og til.

Berið rúllurnar fram sítrónusmjörsósu og sítrónusneiðum, soðnum hrísgrjónum og fersku salati að eigin vali.

 

Deila: