Öll áhöfn Valdimars GK smituð af kórónaveirunni

146
Deila:

Allir fjórtán skipverjar línubátsins Valdimars GK, fjórtán að tölu, hafa greinst með kórónaveiruna. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, staðfestir þetta í samtali við Viljann.

Upp kom grunur um smit á fimmtudag þar sem báturinn var að veiðum út af Suðurlandi. Fyrst var talið að um hefðbundin flensueinkenni væri að ræða, en þegar fleiri fóru að veikjast var haft samband við sóttvarnalækni og viðbragðsáætlun fiskiskipa vegna veirufaraldursins virkjuð, að sögn Björns Halldórssonar, öryggisstjóra hjá Þorbirni í Grindavík sem gerir bátinn út.

Í kjölfarið var ákveðið að halda til lands og áhöfnin öll send í skimun hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Niðurstaðan lá fyrir eftir hádegi í dag; allir fjórtán skipverjarnir um borð eru smitaðir og komnir í einangrun.

Valdimar liggur nú við bryggju í Njarðvík og stendur til að landa upp úr honum í fyrramálið. Verður það gert í samræmi við kröfur Landlæknisembættisins þar að lútandi, en veiran lifir ekki í matvælum og aflinn því nýtanlegur. Björn vill í samtali við Viljann ítreka þakkir útgerðarinnar og áhafnarinnar til starfsfólks landlæknis og almannavarna og HSS í Keflavík, enda hafi allir sýnt fumlaus og fagleg vinnubrögð eftir að málið kom upp. Smitrakning hafi þegar hafist í gær og útgerðin lagt allt kapp á að tryggja öryggi skipverja, eins og nokkur kostur var.

Björn Halldórsson segir að mál þetta sýni hve erfitt sé að eiga við smitsjúkdóma í þeirri nánd sem er um borð í fiskiskipum á hafi úti. Þótt öllum reglum hafi verið fylgt, hafi veiran náð að komast um borð áður en lagt var af stað og hún svo náð að smitast milli allra skipverja á örskömmum tíma.

Ljósmynd Jón Steinar Sæmundsson

Deila: