Fiskeldi Ölfuss stefnir á 20.000 framleiðslu af laxi á ári

57
Deila:

Áætluð árleg útflutningsverðmæti áætlaðs laxeldis í Ölfus gætu legið nærri 22 milljörðum, og segir bæjarstjórinn því fylgja bæði ný störf og ný tækifæri. Í gær undirrituðu Sveitarfélagið Ölfus, og Fiskeldi Ölfuss samkomulag um fýsileikakönnun og uppbyggingu áframeldisstöðvar á laxi og vilyrði fyrir lóð. Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu.

Með samkomulaginu hefur Fiskeldi Ölfuss undirbúning að rekstri landeldisstöðvar sem á að geta framleitt um 20.000 tonn af fullöldum eldislaxi á ári á 200.000 fermetra lóð á svæði í námunda við Þorlákshöfn.

Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfus segir að þessu til viðbótar þá sé fyrirtækið Landeldi ehf. nokkuð á veg komið með undirbúning að laxeldi með árlegri framleiðslugetu upp á 8.000 tonnum. Fyrirtækið hafi aukinheldur þegar upplýst um vilja til að fara í allt að 20.000 tonna framleiðslu á ári á síðari stigum.

Auk þessa hafi Náttúra, fiskrækt haft til skoðunar að hefja fiskeldi á landi skammt utan þéttbýlis í Þorlákshöfn í vík sem heitir Keflavík. Þegar þessi verkefni hafa raungerst gætu því allt að 45 til 50 þúsund tonn af fullöldum laxi verið slátrað í Ölfus á ári segir Elliði. Útflutningsverðmæti, bara þessara verkefna, verði þá sennilega um 60 milljarðar.

Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss og Sigurður Ingi Jónsson verkefnastjóri hjá Fiskeldi Ölfuss við undirritun samkomulagsins.

Þreföld útflutningsverðmæti á við loðnu

Jafnframt bendir Elliði á að verðmæti þorskafurða, sem er með mesta útflutningsverðmæti einstakrar tegundar, hafi í fyrra verið um 100 milljarðar meðan næst verðmætasta afurðin, loðna hafi verið flutt út fyrir um 18 milljarða, þá megi ljóst vera að hagsmunir þjóðarinnar af fiskeldisverkefnum sem þessum séu afar ríkir.

„Komandi kreppa og versnandi staða hagkerfis okkar leggur ríka ábyrgð á okkur hjá hinu opinbera í því er lítur að nýrri verðmætasköpun. Eins og bent hefur verið á þá verðum við að framleiða okkur út úr kreppunni og þetta verkefni er sannarlega skref í þá átt,“ segir Elliði.

„Sveitarfélagið Ölfus hefur nú í nokkur misseri unnið markvisst að því að marka sér sérstöðu hvað varðar umhverfisvæna framleiðslu á matvælum. Til að byggja undir þá sókn höfum við komið á fót samstarfsvettvangi undir nafninu „Ölfus Cluster“ þar sem fyrirtæki vinna meðal annars saman að kortlagningu tækifæra, grænum lausnum og tilurð hringrásar hagkerfis. Áherslur Fiskeldis Ölfuss falla afar vel að okkar framtíðarsýn og við fögnum því að fá þá til liðs við okkur.

Það er líka afar jákvætt fyrir okkur að finna að áherslur okkar í skipulagsmálum hafa gert það að verkum að við getum boðið upp á allar stærðir lóða á einstaklega hagkvæmu verði hér í úthverfi borgarinnar. Þá hefur gengið vel að bæta aðgengi að orku, vatni og fl. Við finnum einnig sterkt að vöxtur hafnarinnar styrkir svæðið verulega. Það er því sóknarhugur í samfélaginu hér.“

Sigurður Ingi Jónsson, verkefnastjóri segir Fiskeldi Ölfluss hafa metnað til að verða leiðandi í fulleldi á laxi á landi og segir hann aðstæður við Þorlákshöfn vera einstakar á heimsvísu.

„Ölfus er að okkar mati eitt helsta vaxtarsvæði á landinu með skýra sýn á innviðauppbyggingu svo sem hvað varðar stækkun hafnarinnar og áherslu þeirra á matvælaframleiðslu,“ segir Sigurður Ingi.

„Þá er til fyrirmyndar sá skilningur sem þar er hvað varðar hagsmuni fyrirtækja eins og okkar. Við horfum til dæmis sterkt til samvinnu innan Ölfus Cluster og teljum allar forsendur til þátttöku í þeim sóknarhug sem við finnum í Ölfusi.“

 

Deila: