Brim fagnar Fishmas

105
Deila:

Fishmas er markaðsherferð sem fjöldi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja innan vébanda SFS standa sameiginlega að og hafa fengið Íslandsstofu í lið með sér við að framkvæma. Herferðin er er sú fyrsta undir merkjum “Seafood from Iceland”. Fishmas er ætlað að auka vitund um íslenskan fisk og allt það sem hann stendur fyrir, allt frá heilnæmi og hollustu til hreinleika hafsins, sjálfbærni við veiðar og langri sögu sjávarútvegs á Íslandi. Í fyrstu atrennu er átakinu sérstaklega beint að Bretlandi sem hefur spilað stórt hlutverk í sögu sjávarútvegs á Íslandi.

Auglýsingastofan Brandenburg, vann hugmyndavinnuna og hannaði markaðsefni. Hluti þess efnis er myndband um Fishmas hátíðina, sem Íslendingar halda hátíðlega að minnsta kosti tvisvar í viku. Father Fishmas, er leikinn af Agli Ólafssyni. Myndbandið hefur verið birt á samfélagsmiðlum. Einnig hefur verið settur upp vefurinn www.fishmas.com en þar er að finna girnilegar uppskriftir að fiskréttum.

Sólveig Arna Jóhannesdóttir starfsmaður Brims hefur tekið þátt í undirbúningi verkefnisins hjá Íslandsstofu fyrir hönd Brims. Hún hefur starfað í sölu og markaðsmálum hjá fyrirtækinu síðastliðin 15 ár og segist bera vonir til þess að átakið skili aukinni vitund um það góða starf sem unnið er í sjávarútvegi hér á landi þar sem vandað sé til verka á öllum stigum. „Nú förum við af stað undir okkar fallega fána sem er hluti af hinu nýja upprunamerki, Seafood from Iceland og kynnum okkur á samfélagsmiðlum gegnum Fishmas átakið. Ég á mér þann draum að við náum ekki bara okkar markmiði um að auka vitund um íslenskan fisk erlendis heldur einnig að landinn taki hugmyndina uppá sína arma og útfæri. Til að mynda ferðaþjónustan og veitinghús um land allt”, segir Sólveig að lokum.

„Hjá Brimi fögnum við Fishmas saman, að minnsta kosti tvisvar í viku allt árið um kring. Í vikunni buðu Tóti kokkur og samstarfsfólk hans í mötuneytinu fyrst upp á ýsu, í grænu karrý með ananas og lime og síðan ufsa með engifer, bambus og fiskisósu. Réttirnir voru eins bragðgóðir og þeir líta vel út á meðfylgjandi myndum,“ segir í frétt á heimasíðu Brims.

 

TENGLAR Í TENGT EFNI;

Seafood from Iceland – vefsvæði

Vefsvæði Fishmas herferðarinnar, uppskriftir, sagan og andinn

Fishmas myndband

Facebook síða Brims

Instagram síða Brims

 

Deila: