Covid hefur auðvitað leikið okkur grátt

131
Deila:

„Flestir héldu að við værum að komast yfir það versta í faraldrinum í vor, en nú held ég að menn séu svolítið slegnir yfir því að faraldurinn hafi komið svona harkalega í bakið á mönnum aftur. Maður var búinn að heyra af veitingastöðum sem voru orðiðnir klárir til að hefja starfsemi aftur eftir nýjum reglum. Þá komu allt í einu nýjar og hertar reglur og það hefur orðið til þess að menn þora ekki einu sinni að fara að undirbúa sig. Nú bíða menn frekar átekta og fylgjast með þróun mála.

Við misstum hluta af páskasölunni vegna faraldursins og ef við missum líka af jólasölunni, líst mér ekki á blikuna. Vonandi verður það ekki raunin og dálítill tími er enn til stefnu og svo þurfa líklega allir að halda jólin hvernig sem allt fer,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík um stöðuna í sölu sjávarafurða.

Gamla Sturla og Gnúpur bíða nú örlaga sinni í Grindavíkurhöfn. Gnúpur er á söluskrá, en líklega fer Sturla í brotajárn.

Miklar breytingar

Miklar breytingar eru að ganga yfir hjá fyrirtækinu. Öll vinnsla í Grindvík er komin undir eitt þak. Einum línubát og einum frystitogara verið lagt, en ísfisktogari keyptur í staðinn. Fyrirtækið gerir nú út frystitogarana Tómas Þorvaldsson og Hrafn Sveinbjarnarson, línubátana Hrafn og Valdimar og togbátinn Sturlu.

„Við tókum þá ákvörðun á sínum tíma, þegar við keyptum Sisimiut, sem nú er Tómas Þorvaldsson, frá Grænlandi, að halda áfram rekstrinum á Gnúpnum einhver misseri þangað til við værum búin að koma þessum breytingum alveg í gegn. Við töldum okkur svo vera komin á þann stað eftir makrílvertíðina í sumar og þá væri hlutverki Gnúpsins lokið, lögðum honum og settum á sölulista.

„Við vorum svo líka búin að leggja línubátnum Sturlu og kaupa ísfisktogarann Smáey, sem nú heitir Sturla. Við settum hann ekki á veiðar fyrr en í ágúst og hann einbeitir sér að veiðum á ufsa og karfa og eitthvað lítilsháttar af þorski og ýsu og öðrum tegundum og það hefur gengið mjög vel. Stór hluti af afla Sturlu hefur farið beint á erlendan markað en eitthvað líka hér innanlands. Línuskipin, Hrafn og Valdimar fóru svo af stað í september.

Söltun á flöttum fiski eykur möguleikana á mörkuðum.
Vinnslan í Grindavík undir eitt þak

Við fórum út í það í vor að breyta vinnslunni hjá okkur. Færa saman á einn stað vinnslurnar í Grindavík. Við tókum þennan tíma frá því um miðjan maí og vorum  að klára það um miðjan september og nú á allt að vera komið í gang aftur. Það verður ekki sagt annað en að það hafi bara gengið mjög vel. Öll vinnsla er þá komin í húsið þar sem saltfiskflökin voru unnin. Ferskfiskvinnslan og frystingin flytjast nú yfir og fara úr gömlu Arnarvíkur húsunum. Við bætum svo við okkur flatningu á saltfiski og þá verður aðeins eftir smá vinnsla á aukaafurðum í Vogunum.

Máttlausir markaðir

Það kemur sér vel núna að bæta flatningunni við þegar markaðirnir eru svona máttlausir. Þá þurfum við að dreifa framleiðslunni vel til að geta nýtt okkur allar holur, sem geta tekið við. Covid hefur auðvitað leikið okkur grátt eins og aðra. Það hefur hægt á sölu á vöru sem hefur farið inn á veitingastaðina og við því dregið úr framleiðslu á þeirri vöru og færa hana yfir í vörur fyrir stórmarkaðina. Nú versla allir niðri í Evrópu í stórmörkuðum og fara ekkert út að borða. Við erum þess vegna að reyna að snúa okkur að þeim markaði eins og við höfum getað.

Buðu heimsendingu á fiski og frönskum

Markaðurinn fyrir fisk og franskar í Bretlandi var bara nokkuð brattur í sumar og frá því í vor, en þessar fiskbúðir voru fljótar til þegar faraldurinn brast á og buðu heimsendingu og „Take a way“, en nú hefur aðeins dregið úr því með bylgjunni sem nú er að ganga þar yfir. Þar sem þetta gekk nokkuð vel hafa fleiri aðilar í sölu fiskafurða verið að reyna að koma sér inn á þann markað.

Verðið hefur lækkað, en misjafnt eftir tegundum. Vara sem fer inn á Asíu hefur haldið sér nokkuð vel í verði, verð á vöru inn á Evrópu og Bandaríkin hefur lækkað“ segir Gunnar Tómasson.

Öll vinnsla í Grindavík er nú komin undir eitt og sama þakið og flatningsvél komin til viðbótar í vinnslulínunni. Ljósmyndir Hjörtur Gíslason.

Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri. Blaðið er gefið út af Ritformi og er því dreift til fyrirtækja um allt land. Blaðið má ennfremur lesa á heimasíðu útgáfunnar á slóðinni, https://ritform.is/wp-content/uploads/2020/10/soknarfaeri_SJOR_4_tbl_okt_2020_100.pdf

Deila: