Umsóknir um fiskeldi fá hraðari afgreiðslu

103
Deila:

Umsóknir um rekstrarleyfi fyrir fiskeldi hjá Matvælastofnun eru nú afgreiddar mun hraðar en áður eftir að starfsfólki var fjölgað. Þrjátíu og fimm umsóknir bíða afgreiðslu en tvö leyfi voru afgreidd í vikunni. Laxar fiskeldi fengu 10 þúsund tonna leyfi í Reyðarfirði í vikunni og Landeldi fékk 100 tonna leyfi fyrir lax og bleikju á Öxnalæk í Ölfusi. Frá þessu er greint á ruv.is

Níu í sjóeldi og 26 í landeldi

Níu umsóknir liggja fyrir um sjókvíaeldi fyrir samtals 50 þúsund tonn. Í elstu umsóknina frá 2015 vantar gögn frá umsækjanda. Stutt er í að að minnsta kosti þrjú leyfi verði gefin út. Munar þar mestu um viðbótar 10 þúsund tonn í Dýrafirði hjá Arctic Sea Farm.

Eðlilega er sótt um miklu færri tonn í landeldinu en umsóknirnar eru fleiri eða 26. Flestar eru þær frá því í ár og í fyrra en elstu frá 2017. Skammt er í að fimm rekstrarleyfi verði gefin út.

Gerð umhverfismats sem Skipulagsstofnun afgreiðir er oft ástæða þess að langan tíma tekur að afgreiða umsóknir. Þá þarf Umhverfisstofnun líka að leggja blessun sína yfir fiskeldið.

„Ferlið hefur vissulega tekið langan tíma en umsóknir um rekstrarleyfi í fiskeldi er mjög stór og þungur málaflokkur, flókinn og fer ört vaxandi og hjá Matvælastofnun hefur einn einstaklingur eða starfsmaður verið að sinna þessum málaflokki síðustu ár,“ segir Erna Karen Óskarsdóttir fagsviðsstjóri fiskeldis hjá MAST. En nú hefur aldeilis fjölgað:

„Við höfum verið tvö undanfarið og svo urðum við þrjú í maí og núna 1. október erum við orðin fjögur.“

Þér finnst að hraðinn orðinn viðunandi núna?

„Hann er það sem betur fer. En málaflokkurinn er alltaf að stækka og okkur veitir ekkert af fleiri starfsmönnum.“

 

Deila: