Koma með kolmunna til Vopnafjarðar

100
Deila:

Uppsjávarveiðiskipið Venus NS er nú á Vopnafirði með rúmlega 2.500 tonn af kolmunna. Víkingur AK ætti að koma til Vopnafjarðar annað kvöld með svipað magn en skipið kláraði síðasta holið í morgun. Aflinn hefur fengist syðst í færeysku lögsögunni en þangað er 32 til 33 tíma stím frá Vopnafirði.

,,Það má segja að gengið hafi alveg þokkalega,” segir Theódór Þórðarson, skipstjóri á Venusi í samtali á heimasíðu Brims. ,,Kolmunninn er á suðurleið og veiðin hefur verið á hinu svokallaða gráa svæði. Það er dagamunur á því hve mikið af kolmunna er að ganga en skipin eru flest með um eða undir 300 tonnum eftir 15 til 20 tíma hol. Veiðin er best á nóttunni en það er lítið að hafa yfir daginn.”

Að sögn Theódórs hefur viðrað vel til veiða og í síðasta túr brældi bara einu sinni. Útlit er fyrir brælu á sunnudag en annars er spáð þokkaleg veðri í næstu viku.

,,Við náum einum stuttum túr fyrir jól og förum út í kvöld strax eftir að löndun lýkur. Við ættum að ná a.m.k. fjórum sólarhringum á veiðum og það verður bara að koma í ljós hvernig aflabrögðin verða,” sagði Theódór Þórðarson.

Deila: